Eva Einarsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Bjartrar framtíðar, er í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar upplýsir hún að ekki hafi verið einhugur í þeirra hópi með aðild flokksins að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Hún segir óánægjuna síst hafa minnnkað. Hún upplýsir að þau ræði um stöðu flokksins innan stjórnarinnar.
„…en menn standi enn við bakið á sínu fólki,“ segir hún.
„Samtalið við grasrótina er mjög gott og við erum sannfærð um að við eigum meira inni. Nú þurfum við að halda rétt á spilunum fram undan og þá eykst fylgið,“ segir Eva.
Fylgi Bjartrar framtíðar mælist rétt rúmlega þrjú prósent. En hvers vegna er svo komið fyrir flokknum?
Í Fréttablaðinu segir um þetta: Ummæli annarra ráðherra hafi áhrif. „Ég þekki það úr eigin vinnu í borgarstjórn að launamunur kynjanna er til staðar. Því hafa ummæli dómsmálaráðherra um meintan launamun kynjanna haft áhrif á hvernig kjósendahópur okkar horfir til okkar.“
Ljóst er að aðild að ríkisstjórninni er ekki sjálfsögð innan Bjartrar framtíðar. Flokkurinn er í meirihlutasamstarfi í þremur sveitarfélögum; Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði. Kosið verður til sveitastjórna innan árs og eflaust er brýnt fyrir Bjarta framtíð að bæta hag sinn. Hvort það verði gert í núverandi stöðu er nokkuð sem flokksfólk þarf að svara.
Af orðum Evu má marka að fjarri fari að ríkisstjórnarþátttakan sé sjálfsögð og ljóst er að hún nýtur fjarri almennar velvildar alls baklandsins.