- Advertisement -

Björn Leví „hraunar“ yfir Ásmund

Björn Leví Gunnarsson skrifar:

Svo það fari ekki á milli mála þá snýst þessi pistill um að hrauna yfir Ása. Ég mun nota orð sem eru mjög lýsandi og nákvæm fyrir þennan sturlaða gjörning sem þetta ferli er orðið allt saman, allt út af því að Ásmundur Friðriksson misnotaði stöðu sína og aðgang að almannafé í gegnum starfskostnað. Til þess að hafa það algerlega kýrskýrt þá nota ég orðið „mistnotaði“ vegna þess sem fram kemur í fréttinni um upphæð starfskostnaðar, fjölda kílómetra miðað við alla aðra og viðurkenningu hans í beinni útsendingu í Kastljósi að hafa fengið endurgreiðslur vegna prófkjara innan flokks og til sjónvarpsþáttagerðar. Öll þau atriði eru rökin í orðunum „rökstuddur“ grunur.

Þetta mál hingað til hefur verið einn risavaxinn farsi sem byrjaði á sjálfsagðri beiðni um rannsókn á aksturskostnaði þingmanna eftir svar sem ég fékk frá forseta Alþingis, þar sem sást að starfskostnaður þingmanna jókst tilfinnanlega rétt fyrir kosningar. Samkvæmt lögum á þingmaður einungis að geta fengið endurgreitt vegna kostnaðar sem hlýst vegna starfa. Að flakka fram og til baka á kosningafundi sem frambjóðandi eru ekki þingstörf. Að nota ráðherrabíl til þess eins og núverandi fjármálaráðherra gerði passar ekki heldur við þær reglur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar ég sá þessar heildarkostnaðartölur þá vildi ég að sjálfsögðu fá að vita hvernig þær skiptast á milli kjördæma og þingmanna. Eru allir að þessu eða eru bara sumir sem valda þessum gríðarlega kostnaði, er augljós spurning þegar maður hefur svona gögn. Afrakstur þeirra spurninga var að Ásmundur innheimti langmestan kostnað vegna „starfa“ sinna. Í kjölfarið á því viðurkenndi hann síðan að sumar af þessum greiðslum væru vafasamar og endurgreiddi tæpar 180 þúsund krónur vegna þess.

Ofan í allt þetta mætti Sunna í Silfrið og notaði orðin „rökstuddur grunur til þess að hefja rannsókn“ með þeirri ákveðni og sannfæringu vegna þess að rökin eru hvorki meira né minna en játning í þessu máli. Þau orð eiga enn við, það er enn tilefni til rannsóknar. Augljóslega. Beiðnum til forsætisnefndar um rannsókn var hins vegar vísað frá með rökum sem halda engu vatni. Í kjölfarið á því, með þeim hvítþvotti sem Ásmundur fékk í afgreiðslu forsætisnefndar hóf Ásmundur þessa vegferð gegn Sunnu og mér, að kvarta undan beiðni okkar um rannsókn vegna játninga hans. Niðurstaðan af því var að Sunna væri sek um brot á siðareglum þingmanna en ekki ég, með rökum um æsing: „umræðan hafi að einhverju leyti einkennst af æsingi fremur en málefnalegum rökum“. Þessi niðurstaða er augljóslega fáránleg miðað við gögn málsins. Það liggur fyrir játning um vafasamar endurgreiðslur. Það eru rök. Þess vegna „rökstuddur“. Miðað við reglur um endurgreiðslu og þau atvik sem Ásmundur játaði í Kastljósi þá er augljóslega grunur um misnotkun á þeim reglum. Samtals er það þá rökstuddur grunur. Orðin eru því augljóslega sögð með málefnalegum rökum en ekki æsingi.

Siðanefndin er ekki ein þar í ruglinu. Meiri hluti forsætisnefndar var það frá A til Ö líka með því að skipa siðanefndinni að taka ekki tillit til sannleiksgildis ummæla. Undir engum kringumstæðum þá getur það talist brot á siðareglum að segja satt. Því skiptir mjög miklu máli hvort Sunna sagði satt eða ekki og meti nú hver fyrir sig miðað við játningu Ásmundar og endurgreiðslu hans á vafasömum kostnaðargreiðslum. Allir sem eru ekki hlutdrægir í málinu ættu að sjá hið augljósa, Sunna var nákvæm og málefnaleg í gagnrýni sinni í þessu máli. Meiri hluti forsætisnefndar brást hryllilega gagnvart þingmanni í minni hluta. Siðanefnd brást algerlega með því að meta ekki sannleiksgildi orðanna þrátt fyrir skipun meiri hluta forsætisnefndar og þetta bréf sem Ásmundur sendi til Evrópuráðsþingsins …

Núna byrjar hraunið. Það tekur tillit til alls þess sem hefur gerst í þessu máli og ég vel þau orð sem ég nota af yfirvegun og nákvæmni til þess að það fari ekki á milli mála hvað mér finnst um þetta.

Ásmundur Friðriksson er lýðskrumari af verstu gerð. Heimsóknir hans út um allt kjördæmið eru ekkert annað en atkvæðaveiðar sem kosta himinháar upphæðir í akstursgreiðslur og skila engu í þingstörfin.

Þetta bréf hans er algjör viðbjóður, ofan í allt það sem á undan hefur gengið þá dirfist hann til þess að leitast eftir refsingu á vegum Evrópuráðsþingsins gagnvart Sunnu. Þvílíka og aðra eins mannleysu (huglaus og ómerkilegur maður – http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob?ord=27629) hef ég aldrei á ævi minni hitt. Skilningsleysið gagnvart þeirri málsmeðferð sem var í þessu máli í forsætisnefnd og siðanefnd hér á landi hentar honum auðvitað gríðarlega vel. Það skilningsleysi er annað hvort einlægt, sem segir þá sitt um gáfur (eða skort á þeim) eða þá að það er viljandi, sem segir þá sitt um hans innri mann. Ég veit ekki hvort er verra, að vera svona heimskur eða vera svona vondur nema hvort tveggja sé.

Ég segi allt ofangreint af yfirlögðu ráði og án reiði. Þetta eru ekki orð sem ég segi í einhverju reiðikasti, hamrandi á lyklaborðið. Þetta eru orð sem ég vel, vel og vandlega, til þess að lýsa skoðun minni á þessu máli frá upphafi og hingað til. Ég geri það í krafti 48. gr. stjórnarskrár Íslands: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína“ og með tilliti til siðareglna þingmanna: „rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, taka ákvarðanir í almannaþágu og efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi“. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir gætu skilið það sem svo að ég fari gegn siðareglugrein um „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“ en ég tel svo ekki vera. Ég tel mig með þessum orðum vera að upplýsa almenning um skoðun mína og sannfæringu með gagnsæi á störf mín og þingsins. Ég nota til þess nákvæm orð til þess að koma meiningu minni á framfæri. Það má vel vera að það væri hægt að gera það á betri og ljóðrænni hátt eða eitthvað þess háttar en það eru ekki allir skáld eða rithöfundar sem geta beitt tungumálinu á frumlegri hátt án þess að hljóma móðgandi eða eitthvað þvíumlíkt. Ég er ekki einn þeirra og þarf að nota þau orð sem ég kann eins og ég skil þau. Ég skammast mín ekkert fyrir það.

Kannski finnst þetta einhverjum óvægin gagnrýni. Þá er það bara nákvæmur skilningur á því sem ég er að reyna að segja. Ég skil ekki af hverju ég ætti að halda eitthvað aftur af skoðunum mínum í þessu máli. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir heiðarleika að halda aftur af gagnrýni í þessu máli, svo alvarlegt er það.

Að því sögðu. Gleðileg jól.

Ásmundur Friðriksson vill að Evrópuráðsþingið grípi til aðgerða gegn Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur vegna þeirrar niðurstöðu siðanefndar Alþingis að hún hafi gerst brotleg. Sagði hún að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur hefði dregið sér fé vegna aksturskostnað…





Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: