Björn Leví gefur kost á sér – Verkefnið framundan
Björn Leví Gunnarsson skrifar:
Ég tel að innsýn mín og reynsla gagnist Pírötum í komandi kosningum og í því þjónustuhlutverki sem þingstarfið er gagnvart grasrót Pírata og landsmönnum öllum. Alþingi stendur frammi fyrir gríðarlega stórum verkefnum á komandi kjörtímabili í kjölfar heimsfaraldurs. Af öðrum verkefnum má svo fyrst og fremst nefna að þingið þarf að klára frumvarp um nýja stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2012. Starfið á Alþingi er einnig gríðarlega óskilvirkt og það kemur í veg fyrir að góð mál komist í gegnum þingið. Það þarf að umbreyta þingstarfinu frá því að vera eintómt löggjafarvald sem nær ekki einu sinni að klára að afgreiða góðar hugmyndir.
Alþingi þarf að efla eftirlitshlutverk sitt gagnvart framkvæmdavaldinu. Eins og er þá tekur óskilvirkt löggjafarhlutverk Alþingis einfaldlega of mikinn tíma og fyrir vikið fær framkvæmdavaldið að starfa nær óáreitt í skjóli samtryggingar stjórnmálamanna sem skilja ekki mikilvægi gæðaeftirlits með valdhöfum. Því gæðaeftirliti eiga þingmenn að sinna, hvort sem þeir eru í þingflokkum ríkisstjórnar eða ekki. Fyrirkomulag minnihlutastjórna myndi stórbæta valdajafnvægið á milli eftirlits- og framkvæmdavalds.
Á næsta kjörtímabili er lýðræðisleg skylda þingsins að klára endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Ég mun þó óháð öllu leggja áherslu á að þingið starfi samkvæmt þeim lýðræðislegu gildum sem er að finna í nýrri stjórnarskrá um frumkvæði almennings og málskotsrétt þrátt fyrir að ekki sé búið að innleiða þau réttindi í lög.
Ég segi það svo skýrt hér með: Hætti ég af einhverjum ástæðum í Pírötum, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, þá segi ég þar með af mér þingmennsku. Ég er á þingi sem fulltrúi ykkar.
Með þökk fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt hingað til.