„Björn virðist með þessu útspili fremur eiga heima í Viðreisn eða í Samfylkingunni en í Sjálfstæðisflokknum. Afstaða hans varðandi frekara framsal til ESB fellur a.m.k. illa að stefnuskrá Miðflokksins,“ skrifar Sveinn Óskar Sigurðsson í nýrri Moggagrein.
Þar rekur Sveinn gerð EES samningsins og einkum hvernig Björn Bjarnason hefur stokkið til og frá með eigin skoðanir varðand EES.
„Í skýrslu Björns Bjarnasonar, Bergþóru Halldórsdóttur og Kristrúnar Heimisdóttur segir: „Binda verður enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi unnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána.“ Á þetta bendir Björn í grein sinni 18. apríl sl. sem hér er nú svarað með fullri vinsemd. Vill Björn fremur setja framsalið í almenn landslög en í stjórnarskrána?
Staðfestir Björn því í raun sjálfur í grein sinni 18. apríl sl., í hrópandi þversögn við sjálfan sig, að ég hafi í raun og sann farið rétt með í grein minni 17. apríl sl. Í framangreindri tilvitnun má lesa skýra afstöðu skýrsluaðila í málinu. Þeir vilja greinilega framselja vald til ESB með lögum og „binda“ þannig enda á „stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar.“. Mun það takast? Viljum við að það takist? Skýrsla framangreindra höfunda er augljós undanfari þess frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi þar sem bókun 35 er gerð að íslenskum lagabókstaf til að tryggja að lög og reglur ESB hafi hingað greiðari aðgang en áður, sé yfir íslenskan lagabókstaf hafin og Íslendingar þannig þvingaðir undir það sem Svisslendingar hafa hafnað. Með grein sinni 15. apríl sl. tekur Björn af allan vafa hvað þetta varðar.“