- Advertisement -

Björn Bjarnason er helv… dóni

Við lestur bréfs Sólveigar Önnu Jónsdóttur vegna yfirgengilegs dónaskapar Björn Bjarnasonar er mér nóg boðið. Ég tek undir með Sólveigu Önnu þegar hún segir: „Mér sárnar að vera kölluð strengjabrúða. Ég upplifi vanmátt þegar það gerist. Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri. Og mér finnst það leiðinlegt mín sjálfrar vegna; leiðinlegt vegna þeirrar stelpu sem ég var, ungu konu og nú fullorðnu konu.“

Ég á dóttur og afastelpur. Ég vil ekki að þeir upplifi fordóma harðhuga karla. Ég þakka Sólveigu Önnu bréfið og óska að hún standi af sér allar svona tindátaárásir. Peningavaldið mun gera allt til að koma henni úr formennsku Eflingar. Þessir gæjar eru öðru vanir og þola ekki að ráða öllu.

-sme

Hér er bréf Sólveigar Önnu Jónsdóttur:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sólveig Anna Jónsdóttir.
Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallar mig á vefsíðu sinni enn á ný „strengjabrúðu“ tveggja karlmanna. Áður hefur hann að ég sé „gerð út“ af þessum sömu mönnum.

Ég hugsaði aðeins um þetta áður en ég sofnaði í gærkvöld. Ég er 45 ára gömul kona. 19 ára gömul var ég farin að vinna fyrir sjálfri mér. 25 ára átti ég 2 börn. Ég bjó í 8 ár í öðru landi þar sem ég sinnti börnunum mínum, vann sem láglaunakona í kjörbúð og tók þátt í sjálfboðastarfi í skóla þeim er börnin mín gengu í og einnig í kirkjunni sem ég sótti. Þegar ég flutti heim árið 2008 fór ég því sem næst samstundis að vinna á leikskólanum Nóaborg í fullri vinnu og vann þar í áratug; sem almenn starfskona, stuðningsfulltrúi nokkurra barna, og að lokum í skamma stund (áður en ég slasaðist illa og varð svo eiginlega strax að loknu veikindaleyfi formaður Eflingar) deildarstjóri á einni deildinni. Frá árinu 2015 þangað til ég tók við sem formaður Eflingar var ég líka í aukavinnu, starfaði í verslun í Kringlunni um helgar, á fimmtudögum, á sumrin og í jólafríinu. Ég tók einnig þátt í ýmsum aktivisma; með Samtökum hernaðarandstæðinga, No Borders, stofnaði Íslandsdeild Attac með félögum mínum og var í mörg ár í skipulagningarnefnd Róttæka sumarháskólans. Mér var á þessum árum boðið að halda ræður og erindi á ýmsum viðburðum, sem ég gerði alltaf ef ég gat og hafði til þess tíma.

Notað til að særa og lítillækka.

Ég hugsaði um lifaða ævi konu. Um það sem ég hef reynt og gert, sagt og hugsað. Um að ég hef ávallt, frá því að ég var lítil stelpa, verið eins einbeitt og ég get í því að hugsa um skoðanir mínar, af hverju ég hef þær, hvers vegna ég geri það sem ég geri. Að ég er vissulega óskólagengin, „bara“ með grunnskólapróf, en hef samt alltaf verið mjög ströng við sjálfa mig um að lesa og fræðast um það sem gerist í veröldinni og það sem hefur gerst. Vegna þess að það hefur skipt mig mjög miklu máli að vita með sjálfri mér að skoðanir mínar séu mínar eigin, byggðar á upplýstri afstöðu og lifaðri reynslu.

Ég hugsaðu um hvað það er undarlegt að þrátt fyrir mínu lifuðu ævi skuli ég samt í augum sumra manna ekki vera neitt nema strengjabrúða, gerð út af karlmönnum. Og ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að það er partur af mér sem verður dapur þegar þessi orð eru notuð. Einhver konu-partur sem hugsar um konur sem hafa lifað, gert, sagt, hugsað en samt aldrei fengið að verða neitt annað en „strengjabrúður“ í hugum valdamikilla manna. Þessi konu-partur veit og viðurkennir að svona orðfæri er andlegt ofbeldi. Notað til að kúga og þagga. Notað til að særa og lítillækka.

Mér sárnar að vera kölluð strengjabrúða. Ég upplifi vanmátt þegar það gerist. Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri. Og mér finnst það leiðinlegt mín sjálfrar vegna; leiðinlegt vegna þeirrar stelpu sem ég var, ungu konu og nú fullorðnu konu.

Ég hef oft fyrirlitið sjálfa mig fyrir að vera „of viðkvæm“.

Ég veit að ég er ekki strengjabrúða eins né neins og ég veit að það er fráleitt að halda því fram. Ég veit líka að því verður aldrei hætt. En ég ákvað í gærkvöldi að verða samt alltaf leið þegar það gerist. Ég ætla ekki að pína konu-partinn til að verða kaldan og harðan gagnvart ógeðinu, heldur halda í tilfinninguna og leyfa henni að lifa. Tilfinningar kvenna hafa verið notaðar gegn þeim og það hefur verið „verkefni“ kvenna að „láta“ ekki særa sig. Ég tel að það sé partur af þeirri kven-fyrirlitningu sem enn grasserar. Partur af uppreisn okkar gegn feðraveldinu er að leyfa ekki að tilfinningar okkar séu notaðar gegn okkur. Við rísum upp gegn þeirri misnotkun með því að viðurkenna tilfinningar okkar fyrir okkur sjálfum, og láta aðra sjá þær og heyra.

Kven-fjandsemin er víða og baráttan gegn henni þess vegna háð útum allt, líka inn í okkar eigin heilum og hjörtum. Ég hef oft fyrirlitið sjálfa mig fyrir að vera „of viðkvæm“. En ég er hætt því. Það eru kvenréttindi mín að verða leið. Ég ætla ekki að breytast. Það sem ég ætla að gera er að berjast fyrir því að kven-hatandi mennirnir með ljótu orðin og hugsanirnar missi völdin sín. Það er barátta sem er þess virði að taka þátt í.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: