- Advertisement -

BJÖRGUM LÝÐRÆÐINU – VEITUM BÖRNUM OG INNFLYTJENDUM KOSNINGARÉTT

Og það mun leiða til betra samfélags fyrir þessa hópa.

Gunnar Smári skrifar:

Til er kenning. Hún er sú að lýðræðið þurfi reglulega endurnýjun til að virka. Ef ekkert er að gert þá ná allskonar hagsmunaklíkur að ná undirtökum í samfélaginu, vald rennur eftir æ dýpri farvegum og hin breiða þátttaka gufar upp, einmitt það sem er forsenda þess að lýðræði virkar. Formið er kannski það sama, nokkuð almennur atkvæðaréttur en þrátt fyrir að almenningur fari með það formlega vald að velja fulltrúa á þing skapast í kringum stjórnmálin menning sem dregur úr valdi almennings; hin ríku kaupa sér þjónkun frambjóðenda, hagsmunahópar spilla umræðunni, valdastéttin ver sig og beitir áhrifavaldi sínu til að sveigja áherslur frá þeim málum sem helst brennur á almenningi og æ fleiri kjósendur upplifa sem allur þessi leikur, öll þessi sviðsetning sé óra fjarri því að fjalla um nokkuð sem raunverulega skiptir máli. Og stjórnmálin forherðast, í stað þess að selja kjósendum von og þátttöku í nýju og betra samfélagi selja þau ótta og loforð um vörn gegn utanaðkomandi eða innri ógn.

Fram eftir tuttugustu öldin var hægt að endurnýja lýðræðið með því að víkka út kosningaréttinn til að þröngva stjórnmálunum til að snúa sér að nýjum hópum og taka tillit til hagsmuna þeirra, vona og væntinga. Á nítjándu öld máttu bara eignamiklir karlar kjósa. Síðan fengu karlar sem ekki voru vinnumenn eða örðum háðir að kjósa, svo einnig konur og loks líka fátækt fólk og skuldugt. Þá var kosningaaldur lækkaður úr 25 árum niður í 20 ár og svo niður í 18 ár. Þetta tímabil nær frá 1903 til 1984 á Íslandi. Eftir það má sjá hrörnun kosningaþátttöku, ég ætla að halda því fram að sú hrörnun sé vegna þess að stjórnmál valdastéttanna hafi náð tökum á leiknum, hætt að snúa sér að nýjum kjósendahópum og farið aftur að stunda stjórnmál sem snerta æ minna raunverulega hagsmuni kjósenda. Þetta á auðvitað ekki við um alla kjósendur en einkum yngri kjósendur, tekjuminni kjósendur og íbúa þéttbýlis fremur en dreifbýlis. Valdakerfi stjórnmálanna nær betur utan um hagsmuni miðaldra og eldri kjósenda, betur utan um hagsmuni þeirra betur stæðu og formið snýst fremur um hagsmuni fólks í dreifðari byggðum en í þéttbýlinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvaða kostir standa okkur til boða?

Eitt er jafna atkvæðarétt milli kjördæma, sem margir hafa krafist og sem myndi sveifla áherslu stjórnmálanna í átt að hagsmunum borgarbúa. Ég skal taka fram að þetta kveikir ekki á mér. Ég nenni ekki að fara út í það hér, en mér finnst ekkert að því að fólk hafi vægi og líka samfélög eins og víðast er gert; t.d. í Noregi og USA.

Annað er að gefa börnum kosningarétt. Foreldrar geta þá kosið fyrir börn sín fram að sjö ára aldri, farið með þeim í kjörklefann til 12 ára aldurs en börnin yrðu að sjá um sig sjálf eftir það. Þetta myndi auka vægi barnafjölskyldna og barnanna sjálfra í stjórnmálum, sem er mjög brýnt. Hagsmunir barna eru virtir að vettugi og lítið á þau hlustað. Og efnahagsleg staða foreldrakynslóðarinnar hefur hrörnað í samanburði við aðra aldurshópa á undanförnum áratugum eftir því sem vægi kjósenda á þessu aldursskeiði hefur minnkað með hærri lífslíkum og þegar barneignum fækkar, sem veldur því að kynslóðin 25-45 ára er ekki lengur mun fjölmennari en fólk á aldrinum 45-65.

Besti kosturinn er hins vegar sá að gefa innflytjendum kosningarétt. Það þarf ekki að taka fram hversu illa er brotið á innflytjendum í láglaunastörfum og hversu lítinn áhuga þau brot vekja hjá kjörnum fulltrúum. Innflytjendur eru nú um 20% af vinnuaflinu og líklega um og yfir 50% af láglaunafólki. Það segir sig sjálft að það lýðræði sem sviptir helming af lægst launaða fólkinu atkvæðarétti er gallað. Og hættulegt. Við erum stigin til fyrri tíma þegar vinnufólk fékk ekki að kjósa.

Það er ekkert sem kallar á að takmarka kosningarétt við ríkisborgararétt. Það er ekki gert í sveitastjórnum, þar sem fólk þarf reyndar að hafa dvalið óþarflega lengi samfellt hérlendis til að fá kosningarétt. Þing og sveitastjórnir eru stjórnir íbúanna og ef 10% íbúanna eru með annað ríkisfang en íslenskt þá er það bara svo; þá ætti 10% kjósendanna að vera með annað ríkisfang en íslenskt. Það er ef við viljum bjarga lýðræðinu frá því að enda eins og staðið hland, ófrjótt og eitrað.

Þess vegna legg ég til að kosningaréttur verði fæðingarréttur þannig að fólk fái að kjósa frá fæðingu til dauða, ef það vill. Og svo að allir íbúar landsins fái að kjósa til þings og sveitarstjórna óháð ríkisfangi.

Þetta myndi leiða til þess að til viðbótar við 250 þúsund manns á kjörskrá myndu bætast 35 þúsund manns yfir 18 ára með annað ríkisfang en Íslands og svo 75 þúsund börn yngri en 18 ára (þ.a. tæp 5 þúsund með annað ríkisfang en íslenskt). Þetta eru afrúnaðar tölur, svo sirkabát. En þessi aðgerð myndi færa miðju stjórnmálanna meira að verkafólki og ungu fólki, meira að börnum og barnafjölskyldum. Og það mun leiða til betra samfélags fyrir þessa hópa.

Mín vegna megið þið gera þetta í áföngum. Klára þetta fyrir 2025.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: