Bjarni vinnur að bankasölu
Frétt að forsíðu Moggans er eftirtektarverð. Þar segir ákveðið að Bjarni Benediktsson undirbúi sölu ríkisbankana, Landsbankans og Íslandsbanka. Væntanlega með fullri samþykkt Vinstri grænna.
Fréttin byrjar svona: „Svo virðist sem enginn áhugi sé á íslensku ríkisbönkunum, Íslandsbanka og Landsbanka. Þetta staðfestir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.“
Áfram með lesturinn: „Til hefur staðið að selja bankana í nokkur ár, en lítil hreyfing hefur verið á málinu undanfarin misseri. Að sögn Bjarna er þess beðið að tillaga um sölu bankanna berist frá Bankasýslu ríkisins. Enn bólar ekkert á slíkri tillögu, en stofnunin var upphaflega sett á laggirnar til fimm ára fyrir um tíu árum. „Við bíðum þess að það komi tillaga frá Bankasýslu ríkisins um að hefja söluferli bankanna, en slík tillaga hefur enn ekki borist. Ferlið fer ekki af stað fyrr en tillagan hefur verið lögð fram. Það er erfitt að segja til um hvenær það verður,“ segir Bjarni.“
Mogginn leitar ekki viðbragða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eða annara.