Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, skrifar fína grein í Mogga dagsins. Hún gerir réttmætar athugasemdir um framgöngu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Einkum að hann vill hlaupa frá gerðum samningum. ÍL málið vindur enn upp á sig. Hér á eftur fer drjúgur hluti greinarinnar:
Það er kaldhæðnislegt að ríkið hafi á sínum tíma tekið Íslandslán (40 ára verðtryggð jafngreiðslulán) og sé núna loksins að átta sig á því hversu ómögulegt er að greiða þau upp. Og hvað gerir ríkið þá? Það reynir að koma sér undan því að standa við gerða samninga.
Ríkið hefur aldrei sýnt neytendum sem tóku þessi sömu lán nokkurn skilning þegar þeir kvörtuðu yfir ósanngirni og óbilgirni Íbúðalánasjóðs, sem krafði neytendur um greiðslu væntanlegs framtíðarhagnaðar, í formi uppgreiðslugjalds, oft hátt í 20% af eftirstöðvum láns.
Hér verður ekki lagt mat á réttmæti hugmynda fjármálaráðherra um að gera upp skuldir sjóðsins miðað við núverandi stöðu þeirra og þannig komast hjá því að greiða kröfuhöfum Íbúðalánsjóðs bætur fyrir framtíðarvaxtatap, sem í daglegu tali kallast uppgreiðslugjald. Ég læt öðrum þá umræðu eftir.
Hitt er ljóst að þessi afstaða fjármálaráðherra samrýmist í engu orðræðunni um að samningar skuli standa. Gangi áætlanir fjármálaráðherra eftir hlýtur sú spurning að vakna hvort það sama muni ekki gilda um þá neytendur sem enn skulda Íbúðalánasjóði húsnæðislán með þessum íþyngjandi skilyrðum.
Fjármálaráðherra og seðlabankastjóri benda fólki ítrekað á að skuldbreyta lánum sínum, en viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs eiga litla sem enga möguleika á því, vegna þeirra svívirðilegu uppgreiðslugjalda sem fjármálaráðherra er nú að reka sig á.
Ég vil benda fjármálaráðherra, sem yfirleitt er mjög umhugað um samningsfrelsið, á að það er leyfilegt að breyta samningum eftir undirritun til hagsbóta fyrir neytendur, t.d. þegar um óréttmæta skilmála er að ræða.
Uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðs flokkast klárlega til óréttmætra skilmála og þegar annar aðili samningsins, Íbúðalánasjóður, verður hvort eð er ekki lengur til, er kjörið tækifæri til að losa neytendur frá þessum skelfilegu skilmálum. Ég vil því beina því til fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, að beita sér fyrir því að skilmálar um uppgreiðslugjöld verði felldir brott úr eftirstandandi útlánum ÍL-sjóðs, eða a.m.k. sett 1-2% hámark á uppgreiðslugjöldin eins og tíðkaðist hjá öllum öðrum lánveitendum á sínum tíma.