Greinar

Bjarni vill braska með þjóðarauðinn

Þrátt fyrir kolsvarta fortíð í viðskiptum vill ráðherrann fara með hluta af þjóðarauðinum á erlenda áhættumarkaði. Á sama tíma eru innviðir hér í kaldakoli.

By Miðjan

December 29, 2018

Fáir eiga eins kolsvarta fortíð í „viðskiptum“ og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Þrátt fyrir að Bjarni hafi, oftast í slagtogi við aðra, tapað óheyrilega miklum peningum og skaðað þannig lífeyrissjóði sem aðra, þá hefur hann fengið samþykkt að mega nota drjúgan hluta ríkissjóðs, þjóðarsjóðinn sjálfan, til að reyna sig með á erlendum áhættumörkuðum.

Sé þess þörf er eflaust hægt að finna betri prókúruhafa en Bjarna Benediktsson. En hver er þörf þjóðarinnar til að láta Bjarna spila áhættuleik eina ferðina enn? Sporin eiga að hræða. Frosti Sigurjónsson Framsóknarflokki hefur skrifað fína grein um þjóðarsjóðinn, eða sem má jafnvel kalla brasksjóð til handa Bjarna Ben.

Hér vantar svo margt

Skoðum aðeins tímabær skrif Frosta um sjóðinn:

Frosti Sigurjónsson: „Verði það að lögum mun ríkið skulda 300 milljörðum meira en ella, í því skyni að kaupa erlend verðbréf.“ Ljósmynd: Vísir.

„Í greinargerð segir: „Með frumvarpinu er ætlunin að komið verði á fót varúðarsjóði, Þjóðarsjóði, til að mæta fátíðum efnahagslegum skakkaföllum sem þjóðarbúið getur orðið fyrir, t.d. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara.“ En hvort skyldi nú vera betra þegar náttúruhamfarir dynja yfir að eiga verðbréf í útlöndum eða trausta innviði og búnað hér á Íslandi sem hægt væri að grípa til tafarlaust? Ég hallast að því síðarnefnda enda á ríkið nú þegar ríflega sjóði erlendis bæði beint og óbeint.

Það þarf augljóslega að byggja upp alþjóðaflugvöll á fleiri landshlutum en SV- horninu. Raforkukerfið hefur ekki varaleiðir ef raflínur skemmast t.d. á suðurlandi í hamförum. Vegagerðin á ekki nægt efni eða tækjabúnað til að koma upp brúm eftir hamfaraflóð. Hér þarf fleiri hátæknisjúkrahús og þau þurfa að búa yfir góðum búnaði. Við þurfum að eiga öflugar færanlegar rafstöðvar og miklu meira en 50 daga birgðir af eldsneyti. Hér eru ekki til öflugar vatnsdælur eða leiðslur til að kæla hraunstrauma, en slíkur búnaður gæti skipt sköpum taki hraun að renna í átt að þéttbýli. Svo mætti eflaust lengi telja upp það sem myndi nýtast til að mæta óvæntum áföllum en á meðan ríkið hefur ekki gert neitt af þessu er varla tímabært að kaupa erlend verðbréf. Vonum að Alþingi segi nei við þessu frumvarpi.“

Brask eða lækkun skulda?

Mikið er til í þessu hjá fyrrum þingmanninum Frosta Sigurjónssyni. Sú leið sem hann bendir á er eflaust ekki eins spennandi og braskið sem Bjarni vill stunda.

Þar sem grein Frosta er góð og vönduð er best að vitna aðeins meira til hennar: „Ríkissjóður skuldar meira en 600 milljarða og um 100 milljarða að auki í erlendri mynt. Þessar skuldir bera árlega tug milljarða vexti sem leggjast á skattgreiðendur. Að auki hvíla um 600 milljarða lífeyrisskuldbindingar á ríkinu. Það er því enginn skortur á ríkisskuldum sem nauðsynlegt er að grynnka á. Standi valið milli þess að lækka skuldir ríkisins sem bera 4-6% vexti eða þess að kaupa erlend ríkisskuldabréf sem bera 0,5-1% (nema tekin sé veruleg áhætta) virðist öruggast að nota allan afgang sem býðst til þess að lækka skuldir ríkisins. Myndi nokkrum heilvita manni detta í hug að leggja til að ríkið skuldsetti sig til þess að kaupa erlend verðbréf? Vonandi ekki. En frumvarp fjármálaráðherrans hefur þó efnislega sömu áhrif. Verði það að lögum mun ríkið skulda 300 milljörðum meira en ella, í því skyni að kaupa erlend verðbréf.“

-sme