- Advertisement -

Bjarni vill að lægstu laun hækki

- en það verður; „...að gerast í réttum skrefum og í jafnvægi. Þeir sem eru neðst í launastiganum þurfa að hafa það betra.“

„Á jákvæðari nótum vil ég taka fram að það sem ég heyri mjög skýrt er að það sé sanngjarnt og réttlætismál að þeir sem séu á lægstu laununum hækki. Því er ég sammála. Það þarf bara að gerast í réttum skrefum og í jafnvægi. Þeir sem eru neðst í launastiganum þurfa að hafa það betra.“

Þetta er hluti af viðtali við Bjarna á vef Viðskiptablaðsins, vb.is.

Eigum að vera ánægð með árangurinn

„Hér hefur kaupmáttur aukist um 24 til 25 prósent á síðustu þremur til fjórum árum og það er, í öllu sögulegu samhengi, algjört afrek. Við öll, almenningur, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld, eigum sameiginlega að vera gríðarlega ánægð og stolt af þessum árangri,“ segir Bjarni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og svo segir hann: „Rúmlega helmingur greiddi engan tekjuskatt fyrir 1990. Augljóst var að það gat ekki gengið til lengdar. Nú taka fleiri þátt í staðgreiðslunni en allir hafa meira á milli handanna. Það er góð þróun að mínu áliti.“

„Við höfum hátekjuskatt“

 Bjarni Benediktsson segir að hér sé hátekjuskattur: „Það hefur lengi verið minn málflutningur að ríkið ætti að taka minna af vinnandi fólki. En ég tel sanngjarnasta skattkerfið vera byggt þannig að sem flestir taki þátt, þeir borgi minnst sem hafa minnst og þeir borgi mest sem hafa mest í tekjur. Umræða um hátekjuskatt finnst mér á ákveðnum villigötum. Við höfum hátekjuskatt. Hann byrjar í 893.713 kr. Laun yfir því marki bera viðbótar 9,3% tekjuskatt – sem þýðir að staðgreiðslan verður 46,24%, ef við gerum ráð fyrir meðalútsvari.“

„Hvernig hefur fólk það?“

„Fyrir ári síðan birti ASÍ skýrslu um þróun skattbyrði í landinu, þar sem fram kom að á undanförnum árum hefði skattbyrði flestra vaxið og samkvæmt skýrslunni átti það ekki síst við um þá sem eru neðarlega í tekjustiganum. Þessi skýrsla dró upp ákveðna mynd en gaf ekki rétta mynd af heildarstöðunni. Þar af leiðandi svaraði hún ekki mikilvægum spurningum á borð við þróun kaupmáttar. Hvort viltu frekar vera með minna á milli handanna og lægri skattbyrði eða meira í vasanum í lok mánaðar og borga eitthvað hærra hlutfall til ríkisins? Grunnspurningin á alltaf að vera: Hvernig hefur fólk það?“

Fleiri taka þátt í staðgreiðslunni

„Skattbyrði hefur aukist. Það er vegna þess að laun hafa hækkað verulega og við höfum ekki haft persónuafslátt sem fylgir launum. En fólk hefur meira á milli handanna, meiri kaupmátt. Það felur í sér lífskjarasókn. Enginn vill gömlu launin og lægri skattbyrðina. Menn vilja nýju launin og gömlu skattbyrðina. En málið er ekki svo einfalt. Spyrja má hvort staðgreiðslukerfið eins og það var mótað í upphafi hafi verið sjálfbært og sanngjarnt. Rúmlega helmingur greiddi engan tekjuskatt fyrir 1990. Augljóst var að það gat ekki gengið til lengdar. Nú taka fleiri þátt í staðgreiðslunni en allir hafa meira á milli handanna. Það er góð þróun að mínu áliti.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: