Mynd: Ani Kolleshi/Unsplash.

Fréttir

Bjarni veit ekki hvað kostar að semja við hjúkrunarfræðinga

By Miðjan

March 22, 2020

Bjarni Benediktsson gat ekki svarað spurningu Jóns Þórs Ólafssonar.

„Það kostaði fjóra milljarða að klára samninga við lækna. Hvað kostar að ganga að þeim kröfum sem hjúkrunarfræðingar hafa gert í dag? Hvað kostar það? Við verðum að fá að vita það,“ sagði Jón Þór Ólafsson Pírati, og beindi spurningunni til Bjarna Benediktssonar. Sem vissi ekki svarið en sagði þetta:

„Ég er einfaldlega ekki með nákvæma tölu til að tjá mig um það hvað það myndi kosta að ganga að kröfum hjúkrunarfræðinga.“

Hann vildi benda á að ríki hafi nýverið samið við sjúkraliða. Bjarni freistaði þess að gera lítið úr Jóni Þór: „Ef heimurinn væri nú bara svona einfaldur, eins og háttvirtur þingmaður segir, að hægt væri að vísa í ástandið og segja: Nú ætlum við að taka einn hóp út fyrir, þá væri kannski ágætis byrjun að allar hinar stéttirnar sem ætluðu ekki að gera kröfu til þess að njóta góðs af því sem aðrir hafa fengið umfram þær, byrjuðu á því að lýsa því yfir og lofa samninganefnd ríkisins að ekki verði vísað í aðra samninga. Það hefur aldrei gerst. Það er bara veruleiki þessara mála að menn semja hver fyrir sig.“