- Advertisement -

Bjarni var ofjarl þingnefndarinnar

„Hlustaði á útsendinguna þegar BB kom á fund eftirlits- og stjórnsýslunefndar. Fáir nefndarmenn hefðu nú sæmt sig vel í stóli saksóknara í bandarískum spennuþætti. BB sagðist m.a. hafa haft áhuga á því, að kona af yngri kynslóðinni hefði verið ráðinn ritstjóri tímaritsins,“ skrifaði Sighvatur Björgvinsson:

„Gerðir þú tillögu um slíka konu og hvaða kona var það,“ hefði saksóknarinn í bandaríska sjónvarpsþættinum spurt. Allir vitum við svarið við því. Bjarni gerði enga slíka tillögu. Þá hefði saksóknarinn í bandaríska sjónvarpsþættinum spurt:

„Gerðir þú þá tillögu til norrænna samráðherra þinna eða til ritstjórnar tímaritsins um að slík kona yrði ráðin.“ Allir vitum við svarið við því. BB lét enga slíka skoðun í ljósi. Þá hefur Bjarni sagt, að hann hefði vel getað hugsað sér að styðja Friðrik Þór Baldursson til ritstjórnarstarfanna. Saksóknarinn í bandaríska sjónvarpsþættinum hefði spurt:

„Gerðir þú tillögu um að Friðrik Þór Baldursson yrði ráðinn til starfans.“ Allir vitum við líka svarið við því. Það gerði BB ekki. Saksóknarinn í bandaríska sjónvarpsþættinum hefði þá spurt:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Gerðir þú enga tillögu um ráðningu til starfans.“ Allir vitum við svarið við því. Hann gerði það ekki. Saksóknarinn í bandaríska sjónvarpsþættinum hefði þá spurt:

„Er það þá ekki til marks um áhugaleysi þitt á málinu að þú gerðir aldrei neitt af þessu.“ Allir vitum við líka svarið við því. Þá hefði lokaspurning bandaríska saksóknarans verið eitthvað á þessa leið:

„Öðlaðist þú þá engan áhuga á málinu fyrr en þér var tjáð, að ritstjórinn, sem ráðinn var til starfans, væri ekki Sjálfstæðismaður.“ Allir vitum við líka svarið við því. Þá hefði bandaríski saksóknarinn í spennuþættinum lokið sínu máli með því að segja:

„Dómari. Það er þá ljóst, að áhugi BB á málinu var ekki áhugi á ritstjórn né ritstjóra tímaritsins, heldur áhugi á Sjálfstæðisflokknum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: