„Eldri borgari sem er með 300 þúsund kr. tekjur í dag fær útborgað kr. 246.627 krónur þ.e. 36,94% skatturinn er 110.820 krónur og persónuafslátturinn 56.447 krónur,“ skrifar Arnór Ragnarsson í grein sem birt er í Mogganum í dag.
„Á næsta ári lítur dæmið svona út: Skatturinn af 300 þúsundunum er 35,04% eða 105.120 krónur og persónuafslátturinn 51.265 krónur. Eftir standa 246.145 krónur, eða 482 krónum minna en á þessu ári. Telur ráðherrann boðlegt að bjóða okkur eldri borgurum upp á þessar falsfréttir og skilur hann nú af hverju fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum?“ Arnór er ósáttur við Bjarna. „Að venju lýsir hann því hvernig eigi að auka við tekjur þeirra sem minnst hafa. Ég beið spenntur útkomunnar, sem kom mér ekki á óvart. Það virðist vera að ráðuneytismenn hafi frjálsar hendur um hvernig skuli koma fram við eldra fólk og ráðherrann trúir því sem nýju neti sem lagt er fyrir hann. Við kynninguna segir hann svo ósatt meðvitað eða ómeðvitað og skal ég færa rök fyrir því.“
Arnór vekur athygli á öðru: „Það má líka benda á það að alþingi ákveður ekki alla skatta sem lagðir eru á borgarana. Til er skattur sem heitir fasteignagjöld sem er auðvitað bara aukaútsvar sem bæjarfélögin leggja á íbúana. Það veit enginn fyrir hvað er verið að borga. Þetta kemur auðvitað til af því að hlutur bæjarsjóðanna af skattakökunni er of lítill. Þessi gjöld hækka ár frá ári mun meira en hefðbundnar verðvísitölur.“
Arnór vonar að undið verði ofan af áformum Bjarna: „Ég vona að þetta verði eitthvað lagað í meðförum þingsins og hvar eru hinir herskáu forystumenn verkalýðsforystunnar? Ætla þeir enn einu sinni að láta sína fyrrverandi félaga sitja í súpunni?“