- Advertisement -

Bjarni tekur undir launafrystingu Sigurðar Inga

Ég held að það sé ekki líklegt til árangurs.

„Og að þegar allar forsendur breytast og minna er til skiptanna, þá geti menn tæplega setið við sinn keip og krafist þess að það sem um var samið skili sér,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í löngu viðtali í viðskiptakálfi Moggans.

Blaðamaðurinn spurði: „Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, drap um daginn á launafrystingu. Komast menn eitthvað áfram með slíkar hugmyndir við aðila vinnumarkaðarins?“

Bjarni svaraði: „Ég held að hann hafi nú aðeins verið að mæla almenn og augljós sannindi um að þegar hagkerfið er í niðursveiflu og glímir við áföll, að þá er ekki mikið svigrúm til þess að fara að auka við launakostnað. En það verða að vera þeir, sem um þetta véla, sem finna hjá sjálfum sér að það séu þeirra hagsmunir að reyna að stjórna atburðarásinni. Þessi bolti er hjá vinnumarkaðnum, hvernig þeir vilja spila úr þessum löngu kjarasamningum sem voru gerðir við allt aðrar forsendur en við horfum upp á nú. Ég held að það sé ekki líklegt til árangurs að þeim sé sagt fyrir verkum, en ég held líka að það sé sjálfsagt að vekja athygli á þeim almennu sannindum að kjarasamningar snúast um að skipta því sem er til skiptanna. Og að þegar allar forsendur breytast og minna er til skiptanna, þá geti menn tæplega setið við sinn keip og krafist þess að það sem um var samið skili sér. Því verður á endanum skilað, en spurningin er hvernig og hvenær.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: