Bjarni Benediktsson hefur lagt fram frumvarp um afnám fjölda laga. Sjá hér að neðan:
Eftirtalin lög eru felld úr gildi: 1. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ganga inn í viðbótarsamning við myntsamning Norðurlanda, nr. 4/1926. 2. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa nokkrar jarðir og afnotarétt jarða í Ölfusi, nr. 104/1940. 3. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar sf., nr. 24/1946. 4. Lög um bráðabirgðabreyting nokkurra laga o.fl., nr. 50/1948. 5. Lög um skattfrelsi vinninga o.fl. varðandi happdrættislán ríkissjóðs, nr. 83/1948. 6. Lög um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, nr. 100/1948. 7. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á móti og ráðstafa framlögum samkvæmt áætlun um fjárhagslega viðreisn í Evrópu, nr. 47/1949. 8. Lög um framlengingu á heimild ríkisstjórnarinnar til að nota allt að fjórum milljónum dollara af yfirdráttarheimild Íslands hjá Greiðslubandalagi Evrópu, nr. 6/1953. 9. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum, nr. 57/1963. 10. Lög um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, nr. 5/1968. 11. Lög um aðgerðir í atvinnumálum, nr. 9/1969. 12. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán vegna Vatnsveitu Vestmannaeyja, nr. 15/1971. 13. Lög um ákvörðun kaupgreiðsluvísitölu fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 1973, nr. 100/1972. 14. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja landspildu úr prestssetursjörðinni Bjarnarnesi í Nesjahreppi, nr. 12/1973. 15. Lög um aðild Íslands að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunar, nr. 25/1976. 16. Lög um skattfrelsi jarðstöðvar til fjarskiptasambands við umheiminn, nr. 20/1977. 17. Lög um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 77/1977. 18. Lög um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimild vegna framkvæmda á sviði orkumála 1979 o.fl., nr. 42/1980. 19. Lög um heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir, nr. 89/1980. 20. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði, nr. 26/1984. 21. Lög um heimild fyrir ráðherra f.h. ríkissjóðs til að ábyrgjast lán fyrir Arnarflug hf., nr. 30/1984. 22. Lög um lántöku o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, nr. 45/1984. 23. Lög um lántöku Áburðarverksmiðju ríkisins, nr. 49/1984. 24. Lög um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, nr. 71/1984. 25. Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Landssmiðjuna, nr. 125/1984. 26. Lög um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs á láni vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju, nr. 82/1985. 27. Lög um heimild fyrir ráðherra f.h. ríkissjóðs til að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku við Elliðaár, nr. 40/1988. 28. Lög um efnahagsaðgerðir, nr. 9/1989. 29. Lög um heimild til ríkisstjórnar til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu, nr. 68/1993. 30. Lög um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi, nr. 53/2001. 31. Lög um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast skuldabréf vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., nr. 87/2002. 32. Lög um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008, nr. 60/2008.
2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.1. Almennt. Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og með því er lagt til að felldir verði úr gildi ýmsir lagabálkar sem ekki eiga lengur við sökum breyttra aðstæðna eða sökum þess að ráðstafanir sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar. Margir umræddra lagabálka eru ekki aðgengilegir í vefútgáfu lagasafnsins heldur er vísað þar til birtingar í eldri útgáfum lagasafnsins á prenti. Frumvarpinu er hagað með þeim hætti að lögum er skipað í aldursröð og skiptast þau niður á tímabil sem hér segir:
1. Lög frá 1900–1949 | 7 |
2. Lög frá 1950–1999 | 22 |
3. Lög frá 2000 og yngri lög | 3 |
Alls | 32 |
Vanalegt er að leggja fram frumvarp til safnlaga til að fella á brott úrelta lagabálka og má í því sambandi nefna lög um brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála, nr. 20/1988, lög um afnám ýmissa laga um iðnaðar- og orkumál, nr. 33/1989, lög um brottfall laga og lagaákvæða, nr. 118/1990 og lög um brottfall ýmissa laga á sviði fræðslumála, nr. 43/2012.
2. Aðdragandi og nauðsyn lagasetningar. Með frumvarpi þessu er lagt til að ýmis lög á málefnasviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hafa lokið hlutverki sínu en eru að formi til enn í gildi, verði felld brott. Í öllum tilvikum er um að ræða eftirhreytur liðinna ráðstafana eða fyrirætlana sem aldrei urðu að veruleika. Æskilegt er að úrelt lög og lög sem ekki eru lengur til neinna þarfa séu numin úr lagasafninu enda þótt færa megi rök fyrir því að það sé ekki aðkallandi. Margir lagabálkanna eru lýsandi fyrir tíðaranda fyrri tíma og aðrir vitna um aðild ríkisins að atvinnuvegum og um ástand efnahagsmála á árum áður. Sökum þess að lögin hafa misst lagalega þýðingu sína tilheyra þau sagnfræðiritum frekar en lagasafninu og geta þau jafnvel valdið óvissu í lagaframkvæmd. Afnám lagabálkanna hefur ekki áhrif á sagnfræðilegt gildi þeirra. Við vinnslu frumvarpsins í ráðuneytinu komu til skoðunar allir þeir lagabálkar sem heyra undir ráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Lagt var mat á hvort ráðstafanir sem kveðið er á um væru um garð gengnar eða hefðu aldrei komið til framkvæmda. Sem dæmi um lagabálka sem ekki þótti rétt að fella úr gildi má nefna lög um sölu kristfjárjarðarinnar Utanverðuness í Sveitarfélaginu Skagafirði, nr. 25/2005, en samkvæmt þeim rann andvirði jarðarinnar til Utanverðunesslegats. Lögin kveða á um að ráðstöfun eigna styrktarsjóðsins (legatsins), verði hann leystur upp, sé háð samþykki félagsmálaráðuneytisins. Legatið er enn til og lögin hafa því enn raunhæft gildi. Einnig má nefna lög um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils, nr. 35/1979, sem kveða á um aðgreiningu milli gömlu krónunnar sem gefin var út fyrir gildistöku laganna og þeirrar nýju. Ákvæði þeirra laga sem snúa að gjaldmiðilsbreytingunni hafa ekki lengur þýðingu en rétt þykir að sjálf aðgreiningin haldi áfram formlegu gildi sínu.
3. Meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu er lagt til að felldir verði úr gildi lagabálkar sem varða málefni fjármála- og efnahagsráðuneytis og ekki hafa þýðingu lengur. Það felur því ekki í sér efnisbreytingu á gildandi rétti. Um er að ræða lagabálka um gjaldeyrismál, eignamál og mál sem tengjast efnahagsráðstöfunum og sköttum og skiptast þeir niður sem hér segir:
Gjaldeyrismál: – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ganga inn í viðbótarsamning við myntsamning Norðurlanda, nr. 4/1926.
Eignamál: – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa nokkrar jarðir og afnotarétt jarða í Ölfusi, nr. 104/1940. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar sf., nr. 24/1946. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja landspildu úr prestssetursjörðinni Bjarnarnesi í Nesjahreppi, nr. 12/1973. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði, nr. 26/1984. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Landssmiðjuna, nr. 125/1984. – Lög um heimild fyrir ráðherra f.h. ríkissjóðs til að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku við Elliðaár, nr. 40/1988. – Lög um heimild til ríkisstjórnar til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu, nr. 68/1993. – Lög um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi, nr. 53/2001. – Efnahagsráðstafanir og skattamál: – Lög um bráðabirgðabreyting nokkurra laga o.fl., nr. 50/1948. – Lög um skattfrelsi vinninga o.fl. varðandi happdrættislán ríkissjóðs, nr. 83/1948. – Lög um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, nr. 100/1948. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á móti og ráðstafa framlögum samkvæmt áætlun um fjárhagslega viðreisn í Evrópu, nr. 47/1949. – Lög um framlengingu á heimild ríkisstjórnarinnar til að nota allt að fjórum milljónum dollara af yfirdráttarheimild Íslands hjá Greiðslubandalagi Evrópu, nr. 6/1953. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum, nr. 57/1963. – Lög um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, nr. 5/1968. – Lög um aðgerðir í atvinnumálum, nr. 9/1969. – Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán vegna Vatnsveitu Vestmannaeyja, nr. 15/1971. – Lög um ákvörðun kaupgreiðsluvísitölu fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 1973, nr. 100/1972. – Lög um aðild Íslands að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunar, nr. 25/1976. – Lög um skattfrelsi jarðstöðvar til fjarskiptasambands við umheiminn, nr. 20/1977. – Lög um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 77/1977. – Lög um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimild vegna framkvæmda á sviði orkumála 1979 o.fl., nr. 42/1980. – Lög um heimild fyrir ráðherra f.h. ríkissjóðs til að ábyrgjast lán fyrir Arnarflug hf., nr. 30/1984. – Lög um lántöku o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, nr. 45/1984. – Lög um lántöku Áburðarverksmiðju ríkisins, nr. 49/1984. – Lög um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, nr. 71/1984. – Lög um heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir, nr. 89/1980. – Lög um sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs á láni vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju, nr. 82/1985. – Lög um efnahagsaðgerðir, nr. 9/1989. – Lög um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast skuldabréf vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., nr. 87/2002. – Lög um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008, nr. 60/2008.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Frumvarpið felur í sér lagahreinsun og kallar ekki á skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Þá tengist það ekki alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem í gildi eru.
5. Samráð. Við samningu þessa frumvarps var almenningi boðið að veita umsögn um áform um lagasetningu í samráðsgátt stjórnvalda á vefsíðunni Ísland.is í október 2019, sbr. mál nr. 258/2019. Þá var almenningi boðið að veita umsögn um drög að frumvarpinu á samráðsgáttinni í nóvember 2019, sbr. mál 288/2019. Engar umsagnir bárust.
6. Mat á áhrifum. Verði frumvarpið að lögum hefur það þau ein áhrif að auka skýrleika lagasafnsins að því er varðar lög á verksviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr. 1. tölul. (heimild til að ganga inn í viðbótarsamning við myntsamning Norðurlanda). Lögin heimiluðu inngöngu í viðbótarsamning frá 1924 við myntsamning sem Danmörk, Noregur og Svíþjóð höfðu gert með sér. Inngangan hafði í för með sér að skiptimynt sem ríkisstjórnir þessara landa höfðu látið slá samkvæmt myntsamningnum frá 1873 hætti að vera löglegur gjaldeyrir á Íslandi. Myntsamningurinn var endanlega felldur úr gildi 8. mars 1972. 2. tölul. (heimild til að kaupa nokkrar jarðir og afnotarétt jarða í Ölfusi).. Um var að ræða kaupheimild vegna jarðanna Hvols, Hvamms og Kirkjuferju í Ölfusi sem ríkið nýtti sér. Lögin byggðu á tillögum nefndar frá 1940 sem tengdust stofnun nýbýla. Þessar jarðir hafa svo verið seldar aftur . 3. tölul. (heimild til að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar). Lögin heimiluðu ríkisstjórninni að taka á leigu um ótiltekinn tíma, með samþykki eiganda eða með leigunámi, geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar sf. enda kæmi fullt endurgjald fyrir afnotin. Verksmiðjan brann árið 1964 og hafa lögin ekki raunhæft gildi lengur. 4. tölul. (bráðabirgðabreyting nokkurra laga o.fl.). Um er að ræða safnlög (bandorm) sem fólu í sér í sér breytingu á fimm lögum: lögum um heimild fyrir ríkisstjórnina til ráðstafana vegna útflutnings á afurðum bátaútvegsins, nr. 44/1946, í tengslum við fjárframlög og lánveitingar af hálfu ríkissjóðs; lögum um eftirlit á skipum, nr. 68/1947, í tengslum við gjaldtöku; lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, nr. 35/1946, í tengslum við frestun á framlagi ríkissjóðs; lögum um tekjuskatt og eignaskatt, nr. 6/1935, varðandi umboð nýbyggingarsjóðsnefndar; og lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum, nr. 60/1939, í tengslum við tollhlutfall. Loks heimiluðu lögin stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, með samþykki sjávarútvegsmálaráðherra, að leggja fram hlutafé í Hæring hf. sem var félag utan um síldarbræðsluskip. Lagabálkarnir fimm hafa síðan allir fallið úr gildi og skipið var selt til Noregs árið 1954. 5. tölul. (skattfrelsi vinninga o.fl. varðandi happdrættislán ríkissjóðs). Lögin kveða á um að vinningar sem falla til í tengslum við lántöku ríkissjóðs með happdrættislánum séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti. Tilgangur skattfrelsisins var að örva sölu skuldabréfa ríkissjóðs í tengslum við fjármögnun tiltekinna framkvæmda, til að mynda vegna vega- og brúargerðar á Skeiðarársandi. Happdrættisskuldabréf voru síðast gefin út á 9. áratug síðustu aldar og þeir happdrættisvinningar sem féllu á bréfin og ekki var vitjað eru fyrndir. Fyrirkomulagið hefur gengið sér til húðar og þykir óhætt að fella skattfrelsið úr gildi. 6. tölul. (dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna). Lögin veittu ríkisstjórn heimildir til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna og voru ákvæði með svipuðu sniði fyrst sett með lögum nr. 98/1941 í því skyni að bregðast við erfiðleikum atvinnuveganna er stöfuðu af styrjaldarástandinu og grípa til fleiri ráðstafana sem óhjákvæmilega nauðsynlegar kynnu að þykja af styrjaldarástæðum. Ýmsum ákvæðum var bætt við lögin og önnur felld brott allt fram til 1957. Höfðu þau að geyma heimildir til að ákveða farmgjöld af vörum, fella niður tolla af ómalaðri kornvöru, hækka tolla af áfengi og tóbaki, lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða og ákveða hámarksleigu fyrir verbúðir, svo dæmi séu nefnd. Lögin hafa lokið hlutverki sínu. 7. tölul. (heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka á móti og ráðstafa framlögum samkvæmt áætlun um fjárhagslega viðreisn í Evrópu).Lögin veita ríkisstjórninni heimild til að taka á móti framlögum án endurgjalds samkvæmt samningi milli Íslands og Bandaríkjanna um efnahagssamvinnu frá 1948. Um er að ræða Marshallaðstoðina sem fól í sér samvinnu um efnahagslega viðreisn Evrópu sem Bandaríkin tóku þátt í, m.a. með framlögum án endurgjalds. Lögin hafa lokið hlutverki sínu. 8. tölul. (framlenging á heimild ríkisstjórnarinnar til að nota allt að fjórum milljónum dollara af yfirdráttarheimild Íslands hjá Greiðslubandalagi Evrópu). Með lögunum veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að nota yfirdráttarmöguleika Íslands, allt að fjórum milljónum dollara, á fjárhagsárum Greiðslubandalagsins 1952–53 og 1953–54, teldi hún þess þörf. Greiðslubandalagið var starfrækt á árunum 1950–1958. Heimild laganna var bundin í tíma og hafa þau lokið hlutverki sínu. 9. tölul. (heimild til lántöku vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum). Um var að ræða heimild fyrir ríkisstjórn til að taka allt að 12 millj. kr. lán, sem endurlánað yrði bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar til vatnsveituframkvæmda. Lánið var tekið árið 1969 hjá Hambros Bank í Lundúnum. Lögin hafa ekki lengur hlutverki að gegna. 10. tölul. (ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda). Lögin fólu í sér annars vegar breytingar á áður ákvörðuðum heimildum fjárlaga ársins 1968 í ljósi þess að athuganir á rekstrargrundvelli sjávarútvegsins, eftir að fjárlög voru afgreidd, leiddi til þess að óumflýjanlegt var talið að veita bátaútveginum og fiskvinnslustöðvum sérstaka fjárhagsaðstoð. Hins vegar höfðu lögin að geyma heimildir til öflunar lánsfjár og lánveitinga, m.a. í tengslum við upptöku hægri umferðar, sem og fyrirmæli um breytingu á tilteknum útgjaldaákvæðum sérlaga. Síðarnefndu heimildirnar og fyrirmælin hafa enn formlegt lagagildi en ráðstafanirnar sem þau gera ráð fyrir eru um garð gengnar. 11. tölul. (aðgerðir í atvinnumálum). Lögin komu til í kjölfar samkomulags frá 17. janúar 1969 á milli ríkisstjórnar Íslands, samtaka vinnuveitanda og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og með þeim var ríkisstjórninni veitt heimild til fjáröflunar vegna samkomulagsins. Jafnframt lögfestu þau atriði samkomulagsins er vörðuðu skipun atvinnumálanefnda í kjördæmum landsins og atvinnumálanefndar ríkisins, sem og úthlutun lánsfjár. Enda þótt atvinnumálanefndum hafi samkvæmt lögunum einungis verið ætlað að starfa út árið 1970 eru þau enn að formi til í gildi og er rétt að bæta úr því. 12. tölul. (heimild til að ábyrgjast lán vegna Vatnsveitu Vestmannaeyja). Lögin heimiluðu ríkisstjórninni að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni sem bæjarsjóður Vestmannaeyja hugðist taka vegna vatnsveitu Vestmannaeyja, til kaupa á nýrri neðansjávarleiðslu frá Landeyjasandi til Vestmannaeyja. Lánið var tekið árið 1971 hjá Scandinavian Bank Ltd., Lundúnum. Lögin hafa ekki lengur hlutverki að gegna og er því rétt að afnema þau. 13. tölul. (ákvörðun kaupgreiðsluvísitölu fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 1973). Lögin kváðu á um heimild til að ákvarða kaupgreiðsluvístölu fyrir tímabilið 1. janúar – 28. febrúar 1973. Ákvæði þágildandi bráðabirgðalaga um tímabundnar efnahagsráðstafanir, sem vörðuðu kaupgreiðsluvísitölu og greiðslu verðlagsuppbótar á laun, áttu að renna út við lok ársins 1972. Þá voru eftir tveir mánuðir af venjulegu gildistímabili kaupgreiðsluvísitölu samkvæmt kjarasamningum og voru lögin hugsuð sem einskonar tímabundin lög til að brúa bilið á milli og taka af tvímæli. Enda þótt lögunum hafi verið ætlaður afmarkaður líftími var ekki kveðið á um tímabundið gildi þeirra. 14. tölul. (heimild til að selja landspildu úr prestssetursjörðinni Bjarnarnesi í Nesjahreppi). Um var að ræða söluheimild vegna allt að 8 hektara landspildu til sveitarfélagsins Nesjahrepps sem nú er hluti Hornafjarðarbæjar. Hugðist hreppsnefndin ráðstafa henni til eiganda jarðarinnar Austurhóls í skiptum fyrir land sem hreppurinn hugðist nota fyrir lóðir undir íbúðarhús. Samkvæmt frumvarpi til laganna lá m.a. fyrir jákvæð umsögn prestsins í Bjarnarnesi sem kvað spilduna prestssetrinu nytjalitla. Ekki er þörf á að lögin standi áfram. 15. tölul. (stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunar). Um er að ræða heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd aðild að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Sjóðnum var ætlað að aðstoða aðildarríki sem lent höfðu í fjárhagserfiðleikum í kjölfar olíukreppunnar 1973–74. Ekki varð af stofnun sjóðsins þar sem sum ríki OECD fullgiltu ekki samninginn. Af þessum sökum er engin þörf á lögunum. 16. tölul.(skattfrelsi jarðstöðvar til fjarskiptasambands við umheiminn). Lögin fólu í sér undanþágu frá aðflutningsgjöldum vegna byggingar jarðstöðvar er annast gæti þráðlaust fjarskiptasamband Ísland við umheiminn um gervitungl. Þá kváðu þau á um undanþágu stöðvarinnar og eigenda frá tekjuskatti, eignarskatti, aðstöðugjaldi og fasteignaskatti að því er varðaði rekstur stöðvarinnar. Lögin byggðu á samkomulagi við Mikla norræna símafélagið (Det store nordiske Telegrafselskab, nú GN Store Nord) um að félagið legði til fjármuni í „jarðstöð til fjarskipta um geimstöð, bæði austur og vestur um haf“. Skyldi jarðstöðin þannig vera sameign Pósts og síma og Mikla norræna símafélagsins fyrst um sinn. Samkvæmt gildisákvæði laganna áttu þau að halda gildi sínu þar til Póstur og sími hefði öðlast fulla eignaraðild að stöðinni á grundvelli samkomulagsins. Samningurinn rann út í lok árs 1985 og eignaðist Póstur og sími þá eignarhlut Mikla norræna símafélagsins í jarðstöðinni Skyggni í Mosfellsbæ. Lögin voru þó ekki felld úr lagasafninu í kjölfarið. Ástæðulaust er að viðhalda þeim þar lengur. 17. tölul. (skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum). Samkvæmt lögunum skyldu allir tekjuskattsskyldir menn undir 67 ára aldri leggja til hliðar fé til varðveislu í ríkissjóð á árinu 1978 í því skyni að brúa bil milli tekna og gjalda ríkissjóðs og auka innlendan sparnað . Þær innstæður sem ekki höfðu verið teknar út í síðasta lagi 31. janúar 1994 skyldu renna í ríkissjóð samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. laganna. Jafnframt kváðu lögin á um hækkun tiltekinna gjalda á árinu 1978. Þær ráðstafanir sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar og er því rétt að fella þau brott. 18. tölul. (heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimild vegna framkvæmda á sviði orkumála 1979 o.fl.). Lögin heimiluðu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að taka lán í erlendri mynt á árinu 1979 og kváðu á um ráðstöfun þeirra í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um framkvæmdir á sviði orkumála á því ári. Jafnframt heimiluðu lögin erlenda lántöku sveitarfélaga vegna hitaveituframkvæmda sveitarfélaga sem og lántöku Orkubús Vestfjarða. Ráðherra var heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð framangreindar lántökur, ellegar taka lán til endurláns. Þá var ráðherra heimilað að ábyrgjast skuldbreytingalán sem bankar í eigu ríkisins veittu olíufélögum og loks að taka skammtímalán hjá Seðlabankanum til að fjármagna tímabundinn mismun tekna og gjalda ríkissjóðs. Lagaheimildarinnar er ekki lengur þörf. 19. tölul. (heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir). Með lögunum var fjármálaráðherra heimilað annars vegar að taka erlent lán á árinu 1980 allt að 4.750 millj. kr. og ráðstafa fjármununum til að lána sveitarfélögum til hafnarframkvæmda, greiða hlut ríkissjóðs í dráttarbrautarframkvæmdum, lána Undirbúningsfélagi um saltvinnslu á Reykjanesi, lána Landhelgissjóði til kaupa á þyrlu og lána ýmsum orkufyrirtækjum til framkvæmda og rannsókna. Jafnframt var honum heimilt að veita umræddum aðilum sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs ef þætti henta að þeir tækju lán án milligöngu ríkissjóðs. Hins vegar var ráðherra heimilað að taka lán allt að jafnvirði 25.000 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á árinu 1981 og verja andvirði þess til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurlána til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum í samræmi við lánsfjáráætlun 1981. 20. tölul. (heimild til að selja lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði). Um er að ræða heimild til að selja hlutafélaginu Sigló hf. á Siglufirði lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði, Siglósíld. Fyrirtækið hafði verið stofnsett með lögum árið 1972 sem B-hluta ríkisfyrirtæki. Jafnframt var ríkisstjórninni heimilað að lána kaupanda allt söluandvirðið með verðtryggðum kjörum til allt að 10 ára gegn þeim tryggingum sem ráðherra mæti gildar.Með frumvarpi því sem varð að umræddum lögum fylgdi kaupsamningur um verksmiðjuna sem undirritaður hafði verið í desember 1983, með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Alþingis, og var umsamið kaupverð 18 millj. kr. Samkvæmt samningnum skyldi lánið tryggt veði í eignum verksmiðjunnar á fyrsta veðrétti. Lánið skyldi greiðast með útgáfu skuldabréfs til 10 ára og vera afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Í október 1985 var gert nýtt samkomulag við Sigló hf. sem fól í sér að öllum kröfum ríkissjóðs á Sigló hf. skyldi breytt í 15 ára lán sem yrði afborgunarlaust fyrstu 5 árin. Jafnframt var fyrirtækinu heimilað að ráðast í nýjar lántökur sem hefðu veðheimild á undan skuldabréfum ríkissjóðs. Sigló hf. var úrskurðað gjaldþrota í apríl 1989. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í maí það ár (sbr. 501. mál á 111. löggjafarþingi 1988–1989) segir að þeir greiðsluskilmálar sem fyrirtækið naut hjá ríkissjóði, það er að fyrsta afborgun skuldabréfs var 8 árum frá kaupsamningi, fyrsta vaxtagreiðsla 3 árum eftir kaupsamning og lánstími 18 ár, teldust afar sérstæðir í slíkum viðskiptum. Sigló hf. innti aðeins af hendi tvær greiðslur í tengslum við kaupin, að fjárhæð samtals 1,2 millj. kr. Þær ráðstafanir sem lögin gerðu ráð fyrir eru um garð gengnar og er því ekki þörf á að viðhalda heimildunum í lagasafninu. 21. tölul. (heimild til að ábyrgjast lán fyrir Arnarflug hf.). Um er að ræða heimild fyrir ríkissjóð til að veita Arnarflugi hf. sjálfskuldarábyrgð fyrir láni allt að 1,5 milljónum bandaríkjadala, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, gegn þeim tryggingum er fjármálaráðherra mæti gildar. Láninu var ætlað að bæta rekstrarfjárstöðu fyrirtækisins. Fyrir lá að í tvö ár á undan hafði verið halli á rekstri félagsins sem m.a. átti rætur að rekja til tæringar sem fannst í Boeing 720 millilandavél félagsins á miðju ári 1982. Áætlanir félagsins fyrir 1984 og 1985 bentu til þess að taprekstri félagsins yrði snúið til jafnaðar, samkvæmt því sem sagði í athugasemdum við frumvarp það sem varð að heimildarlögunum. Fyrirtækið varð gjaldþrota í október 1990 og hafði þá verið gerð tilraun til að auka við hlutafé fyrirtækisins. Í lánsfjárlögum fyrir 1989 var Framkvæmdasjóði Íslands heimilað að annast milligöngu um 129 millj. kr. lán til hluthafa Arnarflugs hf. til að standa skil á hlutafjárloforðum. Þá heimilaði fjármálaráðuneytið félaginu á árinu 1990 að greiða stimpilgjald af skuld, sem hvíldi á flugvél sem félagið hafði tekið á leigu, með skuldaviðurkenningu. Eftir að veðum hafði verið komið í verð þurfti ríkisábyrgðarsjóður að afskrifa tæpar 200 millj. kr. vegna ábyrgðarinnar og aðrar kröfur voru einnig afskrifaðar. 22. tölul. (lántaka o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli). Lögin hafa að geyma heimild til lántöku að fjárhæð allt að 616 millj. kr. eða andvirði allt að 22 milljóna bandaríkjadala vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt er ráðherra þar heimilað að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld, sérstakt tímabundið vörugjald og söluskatt af byggingarefni, vélum, tækjum og búnaði til framkvæmdanna. Líkt og lýst er í greinargerð með frumvarpi til laganna voru þau sett í tengslum við samkomulag milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um samvinnu um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli frá 5. júlí 1983 sem gerði ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið á árinu 1987. Skattaívilnanir laganna náðu því eingöngu til þeirra framkvæmda sem lá fyrir að ráðist yrði í við samþykkt laganna og lýst er í greinargerðinni. Þannig var ráðherra sérstaklega heimilað í fjárlögum ársins 2000 að „fella niður eða endurgreiða tolla, vörugjald og virðisaukaskatt af byggingarefni, vélum, tækjum og búnaði sem keypt er í tengslum við stækkun og breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar …“. Lögin hafa þannig ekki raunhæfa þýðingu lengur. 23. tölul. (lántaka Áburðarverksmiðju ríkisins). Um er að ræða heimild Áburðarverksmiðju ríkisins til að taka lán að fjárhæð allt að 80 millj. kr. með ábyrgð ríkissjóðs. Ríkisstjórninni var heimilað að greiða helming hverrar afborgunar og vaxta af láninu og skyldu þær greiðslur metnar sem stofnframlag ríkissjóðs í Áburðarverksmiðju ríkisins vegna byggingar saltpéturssýruverksmiðju. Lögin höfðu verið samþykkt sem bráðabirgðalög í mars 1983 og var málið lagt fyrir Alþingi samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar í október sama ár. Lánið var tekið hjá Credit Lyonnais í Lyon. Lögin hafa lokið hlutverki sínu. 24. tölul. (ráðstafanir í sjávarútvegsmálum). Lögin hafa að geyma ákvæði um efnahagsráðstafanir, m.a. til að mæta rekstrarvanda í sjávarútvegi, einkum í útgerð fiskiskipa. Um var að ræða ráðstafanir sem brýnt þótti að hrinda í framkvæmd til að draga úr verðbólgu, tryggja atvinnuöryggi og treysta stöðu þjóðarbúsins út á við. Þau ákvæði laganna sem enn eru í gildi kveða á um greiðslu fyrir gjaldeyri vegna útflutnings sjávarafurða sem framleiddar eru fyrir 1. júní 1983 og heimild til niðurfellingar stimpilgjalda af skuldbreytingarlánum útgerðar sem veitt voru fram til 31. maí 1983. Ekki er þörf á að viðhalda lagabálkinum lengur. 25. tölul. (heimild til að selja Landssmiðjuna). Lögin hafa að geyma heimildir fyrir ríkisstjórn til að selja ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna og lána kaupanda hluta af söluandvirði með verðtryggðum kjörum til allt að 10 ára gegn þeim tryggingum sem ráðherra mæti gildar. Með frumvarpinu sem varð að lögunum fylgdi kaupsamningur sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Alþingis hinn 20. september 1984. Þær ráðstafanir sem lögin gerðu ráð fyrir eru um garð gengnar og er því ekki þörf á að viðhalda heimildunum í lagasafninu. 26. tölul. (sjálfskuldarábyrgð á láni vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju). Með lögunum, sem samþykkt voru árið 1985, var ríkissjóði heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð allt að 1,55 milljónir bandaríkjadala til byggingar stálvölsunarverksmiðju Stálfélagsins hf. við Fögruhlíð í Vatnsleysustrandarhreppi. Með lögum um stálbræðslu, nr. 59/1981, var ríkinu heimiluð 40% eignaraðild í félaginu, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 1986. Hvorug lögin komu til framkvæmda og lög um stálbræðslu voru felld úr gildi árið 1989. 27. tölul. (heimild til að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku við Elliðaár). Lögin heimiluðu ríkissjóði að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku við Elliðaár. Samningur milli sölusamtaka íslenskra matjurtaframleiðanda og ríkissjóðs um sölu eignanna var undirritaður á árinu 1986 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Áður hafði heimild verið veitt í fjárlögum ársins 1987 en sú heimild var bundin því skilyrði að fasteignirnar yrðu áfram nýttar í þágu samtaka framleiðenda matjurta. Í stað þess að endurskoða þá heimild í fjárlögum 1988 var afráðið að leggja fyrir Alþingi sérstakt frumvarp um sölu eignanna sem var samþykkt sem lög árið 1988. Eignirnar voru seldar og heimildarinnar ekki lengur þörf.28. tölul. (efnahagsaðgerðir). Um er að ræða bráðabirgðalög sem staðfest voru af Alþingi árið 1989 í samræmi við 28. gr. stjórnarskrárinnar og voru sett „til að koma í veg fyrir stöðvun mikilvægra útflutningsfyrirtækja, styrkja afkomu atvinnuvega, draga úr verðbólgu, lækka vexti og koma þannig í veg fyrir yfirvofandi atvinnuleysi og leggja grunn að atvinnuöryggi og stöðugleika í efnahagslífinu.“ Lögin, eins og þau standa í dag, kveða á um eftirfarandi sjö atriði: 1. heimild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til að taka lán hjá Seðlabankanum með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs og tímabundnar breytingar við ákvörðun sjóðsins á viðmiðunarverði fyrir skelfletta rækju; 2. stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina sem ætlað var að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá fyrirtækjum er framleiddu til útflutnings; 3. starfrækslu hlutafjársjóðs við Byggðastofnun; 4. stofnun atvinnutryggingardeildar við Byggðastofnun sem skyldi þann 1. janúar 1991 taka við hlutverki Atvinnutryggingarsjóðs og stofnun hlutafjárdeildar við Byggðastofnun sem skyldi þann 1. apríl 1991 taka við hlutverki hlutafjársjóðs; 5. greiðslu sérstaks gjalds af bræðslufiski sem fluttur er óunninn til vinnslu erlendis, sem renna skyldi til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins; 6. heimild ráðherra til að hækka ríkisútgjöld um 600 millj. kr. árið 1988 þrátt fyrir ákvæði fjárlaga; og 7. heimild fjármálaráðherra til að ákvarða með reglugerð uppgjör vangoldinna skattkrafna tiltekins hóps á árinu 1987 eða fyrr að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Um þýðingu laganna í dag er það að segja að lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, voru felld á brott með lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 39/1990 (atriði 1 og 5). Með lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 24/1994, voru atvinnutryggingardeild og hlutafjárdeild við Byggðastofnun lagðar niður og lög um Þróunarsjóðinn voru svo felld brott árið 2005 og eignir hans runnu til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins (atriði 2–4). Aðrar aðgerðir eru afstaðnar (atriði 6 og 7). Lögin hafa því engu hlutverki að gegna lengur.29. tölul. (heimild til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi, Suður Múlasýslu). Um er að ræða heimild ríkisstjórnar til að selja jörðina Lönguhlíð í Vallahreppi til ábúenda hennar. Við þinglega meðferð málsins barst yfirlýsing hreppsnefndar Vallahrepps (Vellir eru nú hluti Fljótsdalshéraðs) um að ábúendur hefðu setið jörðina vel og að hreppsnefndin mælti með að þeir fengju hana keypta. Jörðin var seld árið 1994 og afsal gefið út árið eftir.30. tölul. (sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi). Lögin heimiluðu sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi. Skyldi andvirði jarðanna varið til félagslegra framkvæmda í hreppnum og ráðstöfun söluandvirðis háð samþykki félagsmálaráðuneytisins og vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa. Árið 2002 samþykkti ráðuneytið ráðstöfun söluandvirðis Arnheiðarstaða sem að stærstum hluta rann til endurbóta á félagsheimilinu Végarði. Árið 2005 var ráðstöfun söluandvirðis Droplaugarstaða samþykkt og rann það til félagslegrar þjónustu við íbúa Fljótsdalshrepps. Lögin hafa því runnið sitt skeið.31. tölul. (heimild til að ábyrgjast skuldabréf vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.). Lögin heimiluðu að veitt yrði einföld ábyrgð vegna útgáfu móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE Genetics Inc., á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir bandaríkjadala til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Tilgangur laganna var að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar á Íslandi. Gert var ráð fyrir að fjármálaráðherra veitti ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann mæti gild. Sú heimild til ríkisábyrgðar sem lögin kváðu á um tengdust áformum umrædds fyrirtækis sem nánar var lýst í frumvarpi til heimildarlaganna. Fram kom í frumvarpinu að talið væri að fjárfestingin gæti numið um 35 milljörðum króna á þáverandi verðlagi og gert var ráð fyrir að 250–300 ný störf gætu skapast hér á landi á nokkrum árum ef fyrirætlanir fyrirtækisins myndu ganga eftir. Frá upphafi lá fyrir að veiting ríkisábyrgðarinnar væri háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Athugun ESA var ekki lokið þegar Íslensk erfðagreining ehf. tilkynnti stjórnvöldum í apríl 2004 að fyrirtækið væri búið að afla þess fjár sem það þyrfti til þess að byggja upp umrædda lyfjaþróun með því að selja breytanleg skuldabréf án ríkisábyrgðar. Í kjölfarið lokaði ESA málinu. Veiting ríkisábyrgðar á grundvelli laganna kemur ekki til greina lengur enda voru þau bundin tilteknum lyfjaþróunaráformum umrædds einkafyrirtækis sem síðan reyndist unnt að fjármagna á markaðsforsendum. Í framangreindu ljósi er rétt að fella þau formlega úr gildi.32. tölul. (heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008). Um er að ræða heimild ríkisstjórnar til að taka lán fyrir allt að 500 milljarða króna eða andvirði þeirra í erlendri mynt á árinu 2008. Ýmis erlend lán voru tekin á árinu 2008, til að mynda frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (560 millj. SDR endurlánað til SÍ), Svíþjóð, Danmörku og Noregi (samtals 450 millj. EUR), Alþjóðagreiðslubankanum og skammtímavíxlar gefnir út á Evrópumarkaði. Lögin hafa lokið hlutverki sínu.
Um 2. gr. Greinin þarfnast ekki skýringa.