Alþingi
„Mig langar að koma með eina spurningu til hæstvirtan ráðherra: Hvað telur hæstvirtur ráðherra að það sé að axla ábyrgð? Telur hæstvirtur ráðherra að völdum fylgi engin ábyrgð og að völdum séu engin takmörk sett og ef valdhafarnir gerast brotlegir við gildandi lög í landinu að það eigi ekki að hafa neinar afleiðingar? Er það virkilega svo að við séum þangað komin? “
Það var Inga Sæland sem talaði og beindi orðum sínum að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Inga átti meira eftir:
„En ég ætla líka að gleðja hæstvirtan ráðherra með því að við erum að kalla á kosningar næsta haust þannig að hans hæstvirt ríkisstjórn getur hrúgað þessum málum inn og gert allt þetta góða og frábæra fyrir fólkið sem situr eftir í vaxandi fátækt, hrópar á hjálp. Það er sannarlega orðið tímabært að taka tappann úr eyrunum og fara að hlusta, að fara að svara ákalli fólksins í landinu sem er að biðja um hjálp. Það er ekki nóg að koma hér og tala fallega um að allt sé svo æðislegt og hér ríki jöfnuður og annað slíkt þegar það er vitað að það er vaxandi fátækt og nú er líka vaxandi skuldastaða heimilanna, hún hefur vaxið um 5,7% bara í janúar síðastliðinn, frá því á sama tímabili í fyrra. Og nú er talað að um 40% vöxtur sé á skuldum heimilanna, að skuldir heimilanna fari vaxandi. Þannig að ég segi bara: Betur má ef duga skal. Hæstvirtur ráðherra kom sjálfur með vantrauststillögu þar sem hann ætlaði bara að slíta þingi 11. maí og boða til kosninga í kjölfarið. Hvað er þetta öðruvísi nema bara málefnalegra?“
Greinilegt að er að Ingu finnst hún tala fyrir daufum eyrum ráðherrans. Bjarni varð að svara Ingu:
„Það er hluti af framkvæmd lýðræðisins að standa reikningsskil gjörða sinna fyrir kjósendum. Við erum síðan með okkar eigin aðferðir, flokkarnir, til þess að eiga samtal við þá sem vilja styðja þá hugmyndafræði sem við stöndum fyrir. Í því máli sem háttvirtur þingmaður gerði að umtalsefni hér, áliti umboðsmanns Alþingis, þá hef ég sagt allt sem ég þarf að segja um það mál. Ég lét þau orð fylgja á þeim tíma að völdum fylgdi ábyrgð. Við skulum aðeins hafa í huga að einn þingmaður er alltaf bara eitt atkvæði hér í þessum sal. Það er enginn þingmaður með þyngra atkvæði heldur en annar, enginn. Það nær enginn meiri hluta hér í þessum sal bara á forsendum þess að sitja á ráðherrabekknum umfram annan þingmann. Það virkar ekki þannig,“ sagði Bjarni Ben og lætur sem hann trúi þessu. Þykist ekkert kannast við ráðherraræðið.
Meira frá Bjarna:
„Í dag búum við, og höfum gert undanfarnar kosningar, við þær aðstæður að átta flokkar eru með þingmenn á Alþingi. Það kallar á fjölflokkastjórnir, ítrekað, þriggja flokka stjórnir að lágmarki, sem gerir kröfu um málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða og mörgum finnst vera bara töluvert mikil fegurð í því.“
Næst talaði Bjarni fram og aftur um bandaríkjaþing. Við sleppum því og birtum niðurlag ræðu hans:
„Háttvirtur þingmaður gerir lítið úr því að það taki nokkrar vikur að setja saman ríkisstjórn sem á að standa í fjögur ár og hefur nú lifað í bráðum sjö. Ég er þessu algerlega ósammála. Við erum bara rísa undir okkar hlutverki, framkvæma lýðræðið í samræmi við reglurnar og við höfum skilað góðum árangri.“