Sprengisandur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist styðja Ólöfu Nordal innanríkisráðherra eitt hundrað prósent og segir ósanngjarnt að krefjast afsagnar hennar afdrifa albönsku fjölskyldnanna sem voru sendar úr landi, nú fyrir helgi.
„Við erum öll sama sinnis um það að við fáum sting í hjartað þegar að við sjáum lítil börn sem eru veik eins og þarna átti við, að þvælast milli landa því þau fá hvergi skjól,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hafi ekki getað blandað sér inn í ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa albönsku fjölskyldunum úr landi. „Hún kemur ekki að því að afgreiða þetta mál á nokkru stigi. Það er afar ósanngjarnt að beina þeirri kröfu til hennar að hún stígi til hliðar vegna niðurstöðunnar í þessu máli.“
„Það er alveg ljóst og liggur fyrir lögum samkvæmt að það er ekki á hennar borði að taka þá ákvörðun. ,“
Þarf að flýta meðferðinni
Hann sagði hluta þess vandamáls sem nú er uppi hér á landi vera vegna aukinnar komu flóttafólks væri það að kerfið væri of lengi að komast að niðurstöðu. „Það leiðir oft á tíðum til þess að fólk er farið að skjóta rótum hér. Jafnvel farið í vinnu, leikskóla, farið að hafa væntingar um að hér geti framtíðin legið. Svo komumst við eftir langan tíma að niðurstöðu um það að þetta gangi nú ekki upp.“
Bjarni benti á að aðrar þjóðir væru að reyna að flýta málsmeðferðinni. „Mér finnst að við skuldum þessu fólki fyrst og fremst það að komast að niðurstöðu og að veita skýr svör tímanlega þannig að við endum ekki uppi með þessa miklu tragedíu sem að svona mál geta orðið.“
Þá sagði hann að auðvitað hljóti allir að velta fyrir sér hvort beita þurfi sérreglum þegar veik börn eigi í hlut. „Og það er það sem ráðherrann hefur sagt, að hún vilji skoða það sérstaklega.“
Mjög breyttir tímar
Á ráðherrann og má ráðherrann taka fram fyrir hendur Útlendingastofnunnar?
„Viljum við hafa það þannig?“ svaraði Bjarni. „Við ættum kannski að velta því fyrir okkur. Viljum við setja það í hendurnar á ráðherranum að taka svona huglæga afstöðu til þess? Eftir því hversu miklar tilfinningar eru í spilinu hverju sinni? Eða viljum við hafa skýrar reglur sem að menn geta treyst á?“
Bjarni sagðist telja það farsælla að stofnanir og kærunefndir eftir þörfum hefðu slík mál með höndum. „Þetta mál er örugglega eitt af fjölda mörgum sambærilegum málum sem hefur verið glímt við á Norðurlöndunum. Við stöndum frammi fyrir algjörlega breyttum tímum. Og við þurfum að vera fljót að aðlagast þeim.“