Bjarni stöðvar lögmætar greiðslur til öryrkja
Hæstvirtur fjármálaráðherra heldur utan um
ríkisbudduna og hann hreinlega ætlar ekki að opna hana fyrir öryrkjum.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra komi í veg fyrir að öryrkjar fái lögmætar greiðslur.
Halldóra sagði á Alþingi í dag:
„Þann 20. júní 2018 skilaði umboðsmaður Alþingis áliti þar sem hann lýsti því hvernig Tryggingastofnun ríkisins hefði um árabil viðhaldið rangri túlkun á lögum um almannatryggingar og EES-reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Ráðuneytið tók undir álit umboðsmanns þann 29. nóvember 2018 og staðfesti þar með að örorkulífeyrisþegar sem hafa verið búsettir í öðru landi innan EES hafi þurft að lifa við ólöglegar búsetuskerðingar í áratug og jafnvel lengur. Hvað þýðir það, forseti, að ríkið hafi skert stóran hóp örorkulífeyrisþega ólöglega? Ríkið braut lög til að skerða enn frekar þær óheyrilega lágu upphæðir sem það greiðir þeim sem búa við örorku.“
Síðan féll bomban:
„Það er mikilvægt að halda því á lofti að nú, þann 5. febrúar 2019, er enn verið að svíkja öryrkja um þá peninga sem þeir eiga rétt á. Þetta er þá þriðji mánuðurinn sem vísvitandi er verið að svindla á öryrkjum, þriðji mánuðurinn. Og hver eru rökin? Það hefur komið fram að um svo flókna útreikninga sé að ræða að þetta taki tíma. En ég hef fengið það staðfest að verið sé að bíða eftir fjárheimild, þrátt fyrir það sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur sagt hér. Og þar held ég að við séum að nálgast sannleikann. Það er ekki fjárheimild fyrir því að greiða lífeyrisþegum samkvæmt lögum. Ef þetta er hin raunverulega ástæða þýðir það að hæstvirtur fjármálaráðherra stendur í vegi fyrir því að afhenda peningana sem þarf til að greiða þetta samkvæmt lögum. Hæstvirtur fjármálaráðherra heldur utan um ríkisbudduna og hann hreinlega ætlar ekki að opna hana fyrir öryrkjum.“
Og Halldóra endaði ræðu sína svona: „Forseti. Þetta er algerlega ólíðandi framkoma við þennan fátækasta hóp samfélagsins. Ég fer fram á að örorkulífeyrisbætur, örorkulífeyrir, verði greiddar samkvæmt lögum, og það strax.“
Afritaðu og límdu þessa vefslóð í WordPress vefinn þinn til þess að fella inn
Afritaðu og límdu þennan kóða yfir í vefinn þinn til þess að fella inn