Við lestur greinar Styrmis Gunnarssonar staðfestist enn og aftur hvert ástandið er innan Sjálfstæðisflokksins. Þingmennirnir eru ekki í miklum metum hjá ósáttum flokksfélögum.
„Í sumum tilvikum vilja þeir ekki „rugga bátnum“ vegna óþæginda, sem þeir verða sjálfir fyrir, geri þeir það. Í öðrum tilvikum, eins og þessa dagana í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, þegar val á nýjum ráðherra er á döfinni, vilja einstakir þingmenn, sem gera sér vonir um þá ráðherrastöðu, ekki ganga gegn vilja flokksforystunnar, og gera þær vonir að engu með því.“
Auðvitað kann þetta að vera rétt. Það er ekki lítið að dröslast með ráðherradóm í maganum, jafnvel árum saman. Gamnið kann að kárna hjá þeim sem þannig er ástatt um.
Sá hroki sem lýsir sér í þessari afstöðu þingmanna kann ekki góðri lukku að stýra.
Það er fleira sem ósáttir félagar hafa fundið frá þingmönnum flokksins. Það er hroki, ekki bara hroki, heldur ofurhroki.
„Sá hroki sem lýsir sér í þessari afstöðu þingmanna kann ekki góðri lukku að stýra. Ofurhroki (hubris) hefur aldrei orðið til góðs. Og ekki ósennilegt að fyrr en varir verði margir þeirra utan þinghússins en ekki innan og verða þá fljótir að skilja það, sem um er að ræða,“ skrifar Styrmir.
Hin harða Valhallardeila snýst um orkupakkann. „Orkupakkamálið kann því að verða tilefni til nýrrar baráttu fyrir mikilvægum umbótum á okkar samfélagi, umbótum, sem knýja fram meira lýðræði en við höfum þó búið við. Getur verið að þeim sem nú stefna málum í óefni á Alþingi sé nákvæmlega sama, þótt slík uppstokkun verði í framhaldi af þessum umræðum? Það er erfitt að trúa því að svo sé.“
Styrmi þykir, þrátt fyrir erfiða stöðu í augnablikinu, ekki öll nótt vera úti: „En – kannski á orkupakkamálið eftir að leiða til meiri „byltingar“ í íslenzkum stjórnmálum en nokkurn mann hefur órað fyrir.“.