Leiðari Angans Benedikt Jóhannesson. Draumur hans rættist. Hann stofnaði flokk, komst í ríkisstjórn og varð ráðherra. Nú hefur Bjarni Benediktsson, náfrændi Benedikts, slegið á hendur hans.
Benedikt hefur talað ákveðið. Í krafti ráðherraembættisins. Hann er nýliði. Kann ekki leikinn. Í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn ræður bara einn. Flokkurinn.
Benedikt vill rifta búvörusamningnum. Segir réttilega að hann hvetji til offramleiðslu. Hann, sem fjármálaráðherra, segir ekki koma til greina að setja meiri peninga í málið. Ekki að óbreyttu.
Meðan Benedikt fór um allt með afstöðu sína þagði Bjarni. Sagði ekkert, gerði ekkert. Sem er hans helsta einkenni.
Þar til nú. „Það er í gildi búvörusamningur og það stendur ekkert annað til að stjórnvöld standi við hann,“ sagði hann í fréttum rúv í kvöld. Sama hvað Benedikt vill og segir.
Bjarni gat verið notalegri við frænda sinn. Hann gat hringt til hans og sagt honum að láta af mannalátunum. Nei, hann lét hann tala mikið og láta mikið. Angans Benedikt.
Hann átti sér draum.
Steinn Steinarr orti:
Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
…
Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.
Sigurjón M. Egilsson.