Fréttir

Bjarni skilur ekki ábyrgð sína

By Miðjan

November 16, 2022

Oddný Harðardóttir skrifaði:

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í umræðunni í gær á Alþingi að það að halda því fram að hann hafi brotið lög með sölunni á hlutunum í Íslandsbanka væri líkt og að samgönguráðherra yrði dregin til ábyrgðar ef einhver fer yfir á rauðu ljósi.

Þessi ummæli ráðherrans sýnir svo ekki verður um villst að hann skilur ekki ábyrgð sína samkvæmt lögunum um söluna á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar er nefnilega engin armslengd á milli ráðherra og Bankasýslu. Þvert á móti er hlutverk og ábyrgð ráðherrans skrifuð inn í lögin og ekkert svigrúm þar gefið til að senda þá ábyrgð eitthvað annað.

Ég leyfi mér að fullyrða að í öllum hinum norrænu ríkjunum hefði ráðherra í sömu stöðu og íslenski ráðherrann er, sagt af sér strax í vor.

Lögin um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum sem samþykkt voru í desember 2012 áttu að skapa trausta umgjörð ef ætti að selja hlutina. Leiðarstef laganna eru gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Draga átti lærdóm af bankahruninu.

Salan í höndum fjármála- og efnahagsráðherrans hefur hins vegar orðið til þess að almenn óánægja ríkir og traust til ráðherrans og ríkisstjórnarinnar hefur beðið hnekki. Ásakanir um spillingu og vanrækslu eru háværar og um að lögin um söluna hafi verið brotin.Þingmenn stjórnarflokkanna sem og stjórnarandstöðu hafa lýst vonbrigðum sínum með niðurstöðuna.

Og nú hefur Ríkisendurskoðandi kynnt niðurstöðu sína og dregur upp dökka mynd af söluferlinu, mynd sem mér finnst augljóst að ekki sé hægt að nota önnur orð yfir en vanræksla og fúsk að hálfu Bankasýslu og fjármála- og efnahagsráðherra.

Í skýrslu Ríkisendurskoðanda er bent á ábyrgð ráðherrans samkvæmt lögum: „Þótt ekki sé gert ráð fyrir aðkomu ráðherra að framkvæmd sölunnar ber hann engu að síður ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga í skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Hér er slóð á ræðuna mína sem hefst kl 21:22.