- Advertisement -

Bjarni segir kröfur ljósmæðra óaðgengilegar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir kröfur ljósmæðra óaðgengilegar. Segir hættu á að ef samið yrði við þær setti það aðrar kjaraviðræður í uppnám.

Halldóra Mogensen.
„Hver ber ábyrgð á neikvæðum afleiðingum uppsagna ljósmæðra fyrir samfélagið og fyrir konur og börn sérstaklega?“

Halldóra Mogensen, Pírati og formaður velferðarnefndar Alþingis, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um stöðuna í ljósmæðradeilunni, ekki síst hver beri ábyrgð á hvernig komið er.

„Hver ber ábyrgð á neikvæðum afleiðingum uppsagna ljósmæðra fyrir samfélagið og fyrir konur og börn sérstaklega? Ljósmæður eru að segja upp og ef við náum ekki þessum samningum, hver ber endanlega ábyrgð á þeim neikvæðu afleiðingum sem það hefur fyrir samfélagið að missa þessar konur úr vinnu og af spítalanum í aðra vinnu, af því að launin þeirra eru ekki nægilega góð? Hver ber ábyrgð? Það er eina svarið sem ég vil fá,“ spurði hún.

Bjarni svaraði meðal annars með þessum orðum: „Ég get bara sagt það alveg eins og er þannig að það dyljist engum að þær kröfur sem settar hafa verið fram núna eru fyrir samninganefnd ríkisins algerlega óaðgengilegar vegna þess að þær myndu setja fordæmi sem settu allar aðrar kjaraviðræður, sem eru á viðkvæmu stigi í þessu landi á þessu ári og því næsta, í algert uppnám. Það er ástand sem við ætlum ekki að skapa í þessari lotu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum
Bjarni Benediktsson:
„Þess vegna hefur ekki tekist að ljúka samningalotunni. Við munum halda áfram að reyna.“

Áður hafði Bjarni kvartað undan framgöngu ljósmæðra: „Vandinn sem við er að etja er meðal annars að birtast okkur með þeim hætti að í miðri kjaralotunni þegar kjaraviðræður stóðu ágætlega, og ég hef sett mig inn í hvernig þær standa, þegar svo virtist sem væri tiltölulega stutt á milli manna sem sátu við samningaborðið, var skipt um kúrs hjá viðmælendum samninganefndar ríkisins og öllu því, flestu að minnsta kosti, sem áður hafði verið rætt um ýtt til hliðar og færðar fram á samningaborðið allt aðrar og nýjar kröfur. Þess vegna hefur ekki tekist að ljúka samningalotunni. Við munum halda áfram að reyna.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: