„Ég vil byrja á að segja að það er alvarlegt mál þegar formaður stjórnmálaflokks stígur upp á Alþingi og telur það rétta lýsingu á landinu okkar að því sé líkt við spillingarbæli. Ég tel að það sé engin innstæða fyrir svona dramatískum orðum og slíkri lýsingu á landinu okkar og að það sé í raun og veru algerlega með ólíkindum í tilefni af því máli sem við ætlum að taka alvarlega, láta viðeigandi stofnanir rannsaka og komast til botns um,“ sagði Bjarni Benediktsson, á Alþingi fyrir skömmu, þegar hann svaraði Loga Einarssyni.
„Ég óttast að Ísland sé að teiknast upp sem spillingarbæli í augum umheimsins. Skemmst er að minnast þess að Ísland lenti á gráum lista vegna skeytingarleysis gagnvart peningaþvætti og þar er Ísland á meðal 11 annarra ríkja og Namibía er ekki á meðal þeirra. Þá muna eflaust einhverjir eftir Panama-skjölunum þar sem ríkasti hluti þjóðarinnar kom eignum sínum undan til þess að forðast skattgreiðslur eins og almenningur þarf að inna af hendi. Loks má minna á tíu ára afmæli hrunsins þegar gráðugir fjárglæframenn komu landinu næstum í þrot og allar spillingarflétturnar í kringum það,“ hafði Logi sagt.
„…ég hef fengið að fylgjast með síðasta sólarhringinn um að rót alls vanda þessa máls liggi í sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu sem er mært um allan heim fyrir að færa íslensku þjóðinni umframverðmæti af nýtingu auðlindar borið saman við aðrar þjóðir, betri nýtingu af hverjum fiski, meiri verðmætasköpun fyrir hvern fisk dreginn á land o.s.frv., borið saman við það sem áður var þar sem við horfðum upp á gjaldþrot og litla verðmætasköpun í þeirri mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga,“ sagði Bjarni.