„Ég verð að fá að blanda mér í þessa umræðu vegna þess sem hér er sagt, undir fundarstjórn forseta, um þá lögleysu að ríkisstjórnin hafi gefið út yfirlýsingu hér í síðustu viku um sín áform á þeirri forsendu að hún hafi ekki fyrst fundað sérstaklega um málið,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag.
„Þó hafði það verið rætt í ráðherranefnd og í ríkisstjórn, eins og hér hefur komið fram, að við vildum taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Og hvað segir í yfirlýsingunni? Jú, þetta eru boðuð áform um að leggja til við Alþingi síðar, sem hefur úrslitavald í málinu eins og allir vita og sjá, að í framtíðinni munum við fara aðrar leiðir við að losa um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hér leyfa menn sér að koma upp og skrifa blaðagreina, sumir hverjir, og tengja þetta við eftirhrunsárin og landsdómsmálið og nefna það að Geir Haarde hefði nú getað hjálpað ríkisstjórninni við að skilja hversu alvarlegt málið er. Þeir sem tala svona hér í ræðustól, þeir sem láta að því liggja í orði og í skrifum sínum að ríkisstjórnin hafi gerst svo alvarlega brotleg við lög að það eigi að draga menn fyrir landsdóm, þeir skulu þá bara koma með tillögu um það hér, annars hætta þessu þvaðri.“