Moggi Davíðs tekur á sig lítinn krók til að koma föstu skoti á Bjarna Ben. Staksteinar Davíðs eru í dag endurómur af leiðara Viðskiptablaðsins.
„Forystugrein Viðskiptablaðsins er sendibréf til formanns Sjálfstæðisflokksins. „Rauði þráðurinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur verið gegndarlaus útgjaldaaukning. […] Þetta hefur verið gert með fullum stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Þrátt fyrir mikla þenslu í hagkerfinu og þráláta verðbólgu hafa stjórnvöld ekki gert neitt annað en að stíga á bensíngjöfina þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs,“ hafa Staksteinar eftir Viðskiptablaðinu.
„Þessi hallarekstur er meðal annars tilkominn vegna framgöngu ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem einkennist af því hugarfari að lausn alls vanda felist í auknum ríkisútgjöldum. Sumir ráðherrar virðast ekki geta farið gegnum einn vinnudag án þess að lofa meiri útgjöldum. Aldrei er spurt hvort útgjaldaaukningin skili betri þjónustu eða hvort hún auki skilvirkni.
Í raun og veru snýst hin pólitíska barátta á Alþingi um boð og yfirboð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um enn meiri ríkisútgjöld. […]
Alls konar fyrir aumingja, var slagorð Besta flokksins í borginni á sínum tíma. Slagorð sem sett var fram í gríni og háði er nú orðið leiðarstef í íslenskum stjórnmálum og þverpólitísk sátt virðist ríkja um það. Það er fyrst og fremst sökum þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins leika þetta stef rétt eins og þingmenn annarra flokka að fylgi flokksins mælist lítið í sögulegu samhengi.“