Stjórnmál

Bjarni: RÚV er með ræturnar í ríkissjóði

By Miðjan

October 08, 2020

„Jú, ég held að Ríkisútvarpið sé alls ekki hafið yfir gagnrýni hvað varðar umfangið í starfseminni. Það má segja að Ríkisútvarpið sé einstofna, stórt tré sem er með ræturnar í ríkissjóði og lögum um innheimtu gjaldsins en allir aðrir fjölmiðlar séu eins og litlar plöntur sem fá ekki á sig sólina af því að Ríkisútvarpið er með svo langar greinar. Þær plöntur eru aðeins að fölna og margar hverjar að visna algerlega í skugga Ríkisútvarpsins,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi, fyrr í dag.

„Ég held því að mikið rúm sé fyrir umræðu um auglýsingamarkaðinn sem er meginuppspretta tekjulindar fyrir einkarekna fjölmiðla. Maður stígur varla inn á frjálsan fjölmiðil án þess að menn hefji við mann umræðu, áður en útvarpsþátturinn byrjar, eða hvað það nú er, um það hvort ekki sé hægt að auka andrými frjálsu fjölmiðlanna til að bjarga sér sjálfum. Það er nú mjög í anda sjálfstæðisstefnunnar að hjálpa mönnum til sjálfshjálpar,“ sagði fjármálaráðherrann.