Skjáskot: Silfrið.

Stjórnmál

Bjarni óviss um framhald á styttri vinnuviku

By Miðjan

June 16, 2021

„…þegar þetta nýja fyrirkomulag á að taka gildi, að við erum með endurskoðunarákvæði 2023 þar sem fara á yfir árangurinn af þessu og á það mun reyna í millitíðinni hvort allir þeir sem að málinu koma eru tilbúnir til að láta dæmið ganga upp. Ef útfærslan leiðir til mun meiri kostnaður fyrir ríkið en að var stefnt eru forsendurnar í sjálfu sér brostnar og það mun kalla á einhvers konar breytingu þegar að því kemur,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi þegar rætt var um fjármögnun styttri vinnuviku.

„Þegar spurt er um það hversu mörg stöðugildi þurfi að ráða í hjá hinu opinbera þá getum við sagt fyrir ríkið að vaktavinnufólk er um þriðjungur ríkisstarfsmanna í um fjórðungi stöðugilda eða 7.300 starfsmenn í um 5.500 stöðugildum. Það starfar að langstærstum hluta innan heilbrigðis- og löggæslustofnana eins og áður hefur komið fram. Hópurinn er að stærstum hluta konur eða um 80% og er líklegri en aðrir starfsmenn til að vinna hlutastarf. Stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks mun að öðru óbreyttu, tek það fram, mynda svokallað mönnunargat sem getur orðið allt að 780 stöðugildi. En eins og áður hefur komið fram gerum við ráð fyrir því að það mönnunargat verði mannað að mestu með því að breytingar verði í starfshlutföllum og við brjótumst út úr því sem við sáum t.d. í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga fyrir ekki löngu, þar var mjög algengt að starfsmenn væru kannski í 50% starfi en nær allir síðan að taka á sig tilfallandi aukavaktir þannig að í reynd var starfshlutfallið mun hærra. Við erum að vonast til þess að geta brotist út úr þessu og það komi til með að leysa vandann að hluta. Jafnframt er gert ráð fyrir að umbætur í starfseminni geti lækkað fjölda stöðugilda sem annars þyrfti en ekki er ljóst á þessu stigi hversu mörg stöðugildi mun á endanum þurfa að ráða í. Það verður þó væntanlega eitthvað. Sérstaklega á það við um stofnanir þar sem þorri hópsins er þegar í 100% starfi eins og á við í löggæslu. Við höfum svo sem ekki miklar upplýsingar um stöðuna hjá sveitarfélögunum,“ sagði fjármálaráðherrann.