Guðjón Brjánsson, sem var þingforseti á hitafundinum á Alþingi í gær, segir í Mogga dagsins, að ekki hafi verið ástæða til að víta þingmennina sem gagnrýndu Bjarna Benediktsson, eins og hann krafðist að forseti gerði.
„Þarna var það mat mitt að þetta væru harkaleg orðaskipti en ekki tilefni til þess að víta þingmann,“ segir Guðjón S. Brjánsson í Mogganum.
Mogginn segir að í lögum um þingsköp segi að forseti skuli víta þingmann ef hann ber ráðherra brigslyrðum. Það kaus Guðjón ekki að gera í gær og segir hann eðlilegar skýringar á því.
„Þetta er nú alltaf dálítið matskennt. Þarna var ekki verið að bera hann sökum persónulega heldur voru fyrst og fremst gerðar athugasemdir við embættisfærslur ráðherra. Að víta þingmann er mjög alvarlegur hlutur og það er mjög sjaldgæft að gengið sé svo langt að áminna þingmenn fyrir framferði sitt.“
Guðjón segir að í þessu tilviki hafi ásakanirnar ekki beinst að æru ráðherra.
„Ef vegið er að persónu eða æru ráðherra eða þingmanns þá horfa menn frekar til þess að víta þingmenn, ekki þegar menn eru að takast á pólitískt um embættisfærslur. Þegar tekist er á um slíkt hefur maður nú heyrt alls konar og menn hafa gjarnan tekið djúpt í árinni.“