Stjórnmál

Bjarni og Þórdís vanvirða Alþingi

By Miðjan

November 12, 2024

„Hvernig samræmist það lögum um utanríkisþjónustu Íslands að skipa sendiherra í Bandaríkjunum sem hefur enga reynslu af utanríkismálum? Hvers vegna er starfsferilskrá sendiherra Íslands í Bandaríkjunum trúnaðarmál? Þetta eru mikilvægar spurningar sem háttvirt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi á utanríkisráðuneytið þann 12. júní síðastliðinn í kjölfar þess að nefndin stofnaði til frumkvæðisathugunar á skipan sendiherra í Bandaríkjunum og á Ítalíu. Þetta er fyrir fimm mánuðum síðan, virðulegi forseti. Ráðuneytið hefur lögum samkvæmt að hámarki viku til að svara háttvirtri. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en leyfir sér samt sem áður að vanvirða Alþingi og nefndina sem búin var til til þess að veita stjórnvöldum aðhald með þessum hætti, að svara ekki í fimm heila mánuði,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi í gær.

„Hvers vegna gerist þetta, virðulegi forseti? Hvers vegna fáum við engin svör við þessum mikilvægu spurningum? Getur verið að ráðuneytið eigi kannski bara engin svör við þessu, að það sé hreinlega ekki hægt að finna rök fyrir því að skipan Bjarna Benediktssonar á sendiherra Íslands í Bandaríkjunum standist lög?“