Bjarni skrifaði:
„Ég les frétt um að í kosningu innan Eflingar hafi verið samþykkt að félagið segi sig úr Starfsgreinasambandinu (SGS). Í fréttinni kemur fram að 733 hafi greitt atkvæði með því að yfirgefa SGS en 292 hafi verið á móti. Formaðurinn fagnar því að félagsfólk sé sammála forystu félagsins um málið.
Þó er það svo að 95% félagsmanna mættu ekki í atkvæðagreiðsluna. Og svo voru 1,4% á móti. Málið var því útkljáð með samþykki 3,5% félagsmanna.
Þetta er ágætt dæmi um hve laus tengsl stéttarfélaganna eru við félagsmenn sína. Það byggir aftur á því að þeir njóta í reynd ekki frelsis til að standa utan félags og eru þvingaðir til greiðslu iðgjalds til félags sem þeir ,,ættu“ að tilheyra.
Íslensku launafólki ætti að tryggja frelsi til að velja sér félag og standa utan félags kjósi það þann valkost, enda er frelsið til að vera ekki í félagi meðal þess sem stjórnarskránni er ætlað að tryggja.
Um þetta höfum við sjálfstæðismenn lagt fram sérstakt þingmál á yfirstandandi þingi.“
Sólveig Anna svaraði:
„Það er ekki bara Vilhjálmur Birgisson sem grætur sáran í fjölmiðlum yfir úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandinu. Skoðanabróðir hans, sjálfur yfir-framkvæmdastjóri íslensku auðstéttarinnar, hefur stigið niður af hásæti sínu til að veita Eflingarfélögum umsögn sína og deila föðurlegum hugleiðingum. Bjarni Benediktsson hefur í því máli áhyggjur af lágri kosninga-þátttöku. Það er vont að heyra að hinn eflaust önnum kafni yfir-framkvæmdastjóri lifi við áhyggjur vegna þátttökuskorts verkafólks í íslensku þjóðfélagi. Hugsanlega er það þó áhugavert að fyrst núna – eftir 40 samfellda hnignun í virkni og félagslegu starfi verkalýðshreyfingarinnar – skuli þessar áhyggjur hans vakna, þegar láglaunafólk í Eflingu ákveður í lýðræðislegum kosningum að fara aðra leið en þá sem valdastéttin hefði fremur kosið fyrir okkar hönd.
En hvað sem líður furðu vegna tilefnis og ástæðna, þá er það kannski enn furðulegra og enn kostulegra að ég geti nú loksins glatt Bjarna Benediktsson með því að vera sammála honum: Ég vil líka sjá virkari verkalýðshreyfingu með meiri þátttöku félagsfólks sjálfs!
Ég skal persónulega lofa Bjarna Benediktssyni því að við Eflingarfélagar skulum leggja okkur betur fram, vera háværari, kjósa oftar um verkfallsaðgerðir, mótmæla oftar fyrir utan ráðherrabústaðinn, mæta fjölmennari til leiks á baráttufundi, og láta íslenska valdastétt finna betur fyrir okkur að öllu leyti. Það gengur alls ekki að stjórnmála-elítan hitti aðallega umboðslausa og ó-kjörna formenn dauðra verkalýðsfélaga, eins og tíðkast hefur og ríkt mikil ánægja með hjá þeim sem telja sig eigendur eyjunnar okkar og alls þess sem að á henni lifir. Þar erum ég og félagar mínir sannarlega tilbúin til að leggja okkar af mörkum.
Sjáumst í baráttunni, Bjarni. Hún er bara rétt að byrja.“