- Advertisement -

Bjarni og Katrín gefa einhverjum Pétri heilt hús að gjöf frá almenningi

En klikkaðasta af öllu er að þið látið þetta yfir ykkur ganga.

Gunnar Smári skrifar:

Hvernig getur fólk reiknað það út að það sé hagkvæmara fyrir almenning að leigja húsnæði af einkafyrirtæki undir Ríkisskattstjóra en að ríkið kaupi, eigi og reki sjálft húsnæðið? Svarið er: Það er ekki hægt. Í öllum tilfellum er það hagkvæmara fyrir ríkið að eiga sínar eigin húseignir. Það segir sig sjálft. Íþaka sem leigir skattinum reiknar það út að leigutekjur standi undir öllum framkvæmda- og rekstrarkostnaði við húsið á þessum árum og gott betur; félagið mun fá góðar tekjur af Ríkisskattstjóra á leigutímanum og eiga svo þetta hús skuldlaust við lok þessa samnings. Þá mun Ríkisskattstjóri annað hvort leigja áfram og gefa Íþöku stórar upphæðir mánaðarlega, fé sem stofnunin þyrfti engum að greiða ef hún hefði byggt sitt eigið hús, eða fara til næsta gæðings stjórnmálanna og gefa þeim nýtt hús með jafn vitlausum samningi.

Eigandi Íþöku er Pétur Guðmundsson í Eykt sem rekur fasteignafélög sem hafa skilað 1,5 til 2,5 milljörðum í hagnað á undanförnum árum. Pétur hagnaðist gríðarlega þegar Reykjavíkurborg ákvað að leigja af honum í Borgartúni í stað þess að byggja sjálf yfir skrifstofur sínar, sem er alltaf og ætíð skynsamlegra af opinberum aðilum sem eru að leita að framtíðarhúsnæði fyrir stofnanir sínar. Á móti þessari alkunnu skynsemi stillir stjórnmálafólk öfgatrú sinni um að hlutverk stjórnmálanna sé fyrst og síðast að flytja fé úr almannasjóðum til hinna fáu ríku. Þetta stjórnmálafólk þykist trúa því að þar eigi féð heima; að almenningur sé dauðinn og allar eignir, auðlindir og sjóðir skemmist undir honum en lifni hins vegar við og blómstri ef hinum ríku sé fært þetta á silfurfati.

Þetta er auðvitað klikkað. En klikkaðasta af öllu er að þið látið þetta yfir ykkur ganga. Enginn frétt í fjölmiðlunum segir í dag: Með leigusamningi sínum fyrir skattinn gefur Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Katrínar einhverjum Pétri Guðmundssyni heilt hús að gjöf frá almenningi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: