Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi varaformaður Miðflokksins og þingflokksformaður, vilja báðir að íslensk yfirvöld fari hraðar en aðrar þjóðir í að veita leyfi til bólusetningar vegna Covid.
„Það gæti verið mikill ávinningur fyrir okkur Íslendinga að hafa sjálf unnið þá vinnu sem þarf til að taka afstöðu til lyfsins en það hlýtur að reyna á í þessu máli hvort við getum gert það hraðar en evrópska lyfjastofnunin,“ segir Bjarni í Moggafrétt. Hann segir að hér sé fullhæf stofnun en segist þó ekki vita hvort nægur mannskapur og þekking sé til þessa verks.
Gunnar Bragi skrifar í Moggann og segir: „Svo virðist sem sú ákvörðun stjórnvalda að leita á náðir Evrópusambandsins hafi ekki verið vel ígrunduð. Mörg hinna frjálsu ríkja hafa samið um nóg af bóluefni meðan ESB hefur verið í vandræðum og það réttilega gagnrýnt fyrir skrifræði og flókið kerfi. Utanríkisráðherra, sem varla hreyfir sig án þess að spyrja ESB, hefur væntanlega haft hönd í bagga með samninga um bóluefni og því hljóta hann og heilbrigðisráðherra að gefa sameiginlega skýrslu um hvernig staðið var að málum.“
Í Mogganum segir svo: „Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir býst ekki við að hér á landi fyrirfinnist sú sérfræðiþekking sem þarf til að veita bóluefnum markaðsleyfi.“
Þar með ætti sprikl og kosningaskjálfti Bjarna og Gunnars Braga að enda. Að sinni, hið minnsta.