„Meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins hér í borginni á árunum 1930-2006 var 50,4%. Í síðustu alþingiskosningum fékk flokkurinn 21,9% í Reykjavíkurkjördæmum og í síðustu kosningum til sveitarstjórna fékk flokkurinn 24,5% í Reykjavík. Þetta eru tvenn verstu úrslit frá stofnun flokksins.“
Flokksmaðurinn Viðar Guðjohnsen skrifar þetta í nýrri Moggagrein. Þessi ábending flokksmannsins hlýtur að koma við marga. Leiðin liggur niður. Hvað veldur?
„Margra ára vanræksla á gildum og innra starfi flokksins hefur skapað þessa stöðu og það mun taka mörg ár að endurheimta fyrri styrk ef það er yfir höfuð hægt. Inn á við spegla fundarsköp síðasta landsfundar stöðu flokksmanna gagnvart svonefndri miðstjórn en öll almenn málefnaumræða í sal var sett í Gleipnis fjötra. Þetta kemur ofan á þróun þar sem tillöguréttur landsfundarfulltrúa í sal hefur verið skertur fund frá fundi,“ skrifar Viðar.
„Ekki verður horft fram hjá því að hin ófrávíkjanlegu grunngildi flokksins, um frjálsa þjóð í frjálsu landi, eru orðin að einhverslags rykföllnu skrauti í huga fulltrúanna okkar sem brúka þau eingöngu á tyllidögum og þá til sýnis. Virðing fyrir sjálfstæðisbaráttu forfeðranna eða sameiginlegum arfi þjóðarinnar virðist engin,“ skrifar Viðar og er allt annað en sáttur með stöðu flokksins og stjórn hans.
Þetta má sjá í nýlegum tilraunum til að réttlæta innleiðingu á svokallaðri bókun 35. Bókunin hefur þau réttaráhrif að hið flókna regluverk Evrópusambandsins skal túlkað rétthærra því íslenska nema „að Alþingi hafi mælt fyrir um annað“.
„Maður hefði nú haldið að þegar lýðræðislega kjörin löggjafarsamkoma í fullvalda ríki setur lög gæti hún hreinlega gengið út frá því að lagasetningin hafi þýðingu án þess að taka það sérstaklega fram. Hvílík undirgefni!“
Nokkru síðar segir í grein Viðars:
„Þegar evrópsk lög eru innleidd eru þau hins vegar að jafnaði innleidd með þingsályktun sem hvorki sætir slíkri meðferð né kallar á undirritun forseta. Í sögulegu samhengi var hinum evrópsku möppudýrum, sem litla sem enga þekkingu hafa á okkar landshögum, ekki ætlað víðtækt lagasetningarvald. Fyrirætlanir þeirra um að skattleggja flugsamgöngur eða sívaxandi afskipti af hérlendu regluverki orkumála hlýtur að kalla á endurmat á með hvaða hætti evrópskt regluverk er innleitt í íslenskan rétt.“
Að lokum er þessi tilvitnun í grein Viðars:
„Allt tal slíkra stjórnmálamanna um væntumþykju fyrir fullveldi, þjóðareinkennum, gildum og einingu eru orðin tóm. Innantómt sýndarhjal.“
Það er ekkert annað. Ekki er hann hrifinn af Bjarna og öðru forystufólki Sjálfstæðisflokksins.