Á sama tíma og bensín hefur aldrei verið dýrara hér á landi er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ekki á þeim buxunum að lækka tímabundið gjöld á eldsneyti.
„Við myndum ekki vilja grípa til örvandi aðgerða þegar það er spenna í hagkerfinu,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Lægsta bensínverðið í dag er hjá Costco þar sem verð á bensínlítra er 281,8 krónur. Verð á bensíni er 320,9 krónur hjá N1 og 319,3 krónur hjá Orkunni. Hlutur íslenska ríkisins í bensínverði er í dag um 50 prósent.
Bjarni segir eitthvað sérstakt þurfi að koma til svo hann skoði að lækka gjöld ríkisins á bensíninu:
„Við höfum ekki verið að undirbúa slíkar aðgerðir og ef eitthvað er þá myndi ég hallast að því að í ljósi vaxtahækkanna og versnandi verðbólgu sem orðið hefur frá því að fjármálaáætlun var lögð fram kæmi frekar til álita að við myndum skoða leiðir til þess að auka aðhaldið og leggja þannig meira af mörkum til þess að slá niður verðbólguvæntingar.
Af hverju lækkar ekki Seðlabankinn vexti ef heimilin verða fyrir nýjum útgjöldum og ef verkefnið snýst um að gera öllum kleift að komast í gegnum tímabilið? Það er vegna þess að við erum í dag að upplifa of mikla spennu í hagkerfinu og helmingur fyrirtækja fær ekki nægilega margt starfsfólk. Laun hafa hækkað hérna um í kringum átta prósent síðasta árið, við erum ennþá að taka út talsverða kaupmáttaraukningu þrátt fyrir allt og það eru öll merki þess í augnablikinu að það sé of mikil spenna í hagkerfinu og aðgerðir sem myndu verða til þess fallnar að auka ráðstöfunartekjur heimila væru að verka öfugt við það sem Seðlabankinn er að reyna að gera og það þyrfti alveg sérstaka réttlætingu fyrir því.“