Bjarni, leyndin og Lindarhvoll
Gríðarlegar upphæðir fóru um hendur stjórnenda Lindarhvols þau tvö ár sem félagið starfaði.
Öllum tilraunum til að fá upplýsingar frá félaginu hefur verið mætt með útúrsnúningum og oft skætingi.
„Með því að stofna sérstakt einkahlutafélag til þess að annast þessi verkefni, í stað þess að sinna þeim í ráðuneytinu, var hægt að komast hjá lögum og reglum um upplýsingagjöf en Lindarhvoll heyrði ekki undir „Opna reikninga“ frekar en ESÍ.“
Þetta er meðal þess sem má lesa í langri, og forvitnilegri, grein sem Skapti Harðarson, sem er formaður Samtaka skattgreiðenda, skrifar og birt er í Mogganum í dag.
„Lindarhvoll er einkahlutafélag í eigu ríkissjóðs og var meðal annars falið að selja þær eignir sem lagðar voru til ríkissjóðs sem hluti af svokölluðu stöðugleikaframlagi fjármálafyrirtækja í tengslum við nauðasamningana. Samið var við sjálfstætt starfandi lögfræðing um að sjá um reksturinn. Í stjórn félagsins sátu þrír ríkisstarfsmenn og fékk stjórnarformaðurinn, starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, um 450.000 kr. á mánuði en meðstjórnendurnir, kennari í Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri ESÍ, um 300.000 kr. Fjármálaráðherra ákvað stjórnarlaunin (embættismenn í mörgum launuðum störfum hjá ríkinu væri efni í aðra grein!).“
Skapti rifjar upp: „Gríðarlegar upphæðir fóru um hendur stjórnenda Lindarhvols þau tvö ár sem félagið starfaði. Enn eru deilur um sölur á eignum félagsins og ýmislegt sem bendir til að fagmennska og heilindi hafi ekki alltaf verið höfð að leiðarljósi. Öllum tilraunum til að fá upplýsingar frá félaginu hefur verið mætt með útúrsnúningum og oft skætingi. Sjálfsögðum upplýsingum, eins og um aðgang að tilboðum eftir að tilboðsferli lauk, nöfnum tilboðsgjafa og upplýsingum um fjölda stjórnarfunda á ári er synjað og þarf að slíta út úr félaginu með aðstoð úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Settur ríkisendurskoðandi tók út rekstur Lindarhvols fyrir tveimur árum og skrifaði um hann greinargerð sem var afhent sumarið 2018. Einhverra hluta hefur hún enn ekki verið gerð opinber. Hvað er þar sem þolir ekki dagsljósið?“