„Við þekkjum það úr íslenskri stjórnmálaumræðu að hugtakið pólitísk ábyrgð er túlkað með þrengri hætti af valdhöfum hverju sinni en ásættanlegt er. Vissulega er hugtakið undirorpið túlkunum en hérlendis hefur það á stundum virst sem svo að það sé sjálfstætt og háleitt markmið í sjálfu sér að kannast helst ekki við ábyrgð sína fyrr en í flest skjól er fokið,“ sagði Sigmar Guðmundsson Viðreisn.
„Ég hef ítrekað kallað eftir því að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra axli pólitíska ábyrgð á mislukkaðri bankasölu. Í því felst ekki sjálfkrafa, eins og sumir virðast halda, að einungis sé hægt að gangast við ábyrgð með því að segja af sér embætti. Í mínum huga snýst þetta tiltekna mál um að framganga, ákvarðanir og málsmeðferð ráðherra og ríkisstjórnar er með þeim hætti að allt traust er fokið út í veður og vind. Nægir þar að nefna að einn ráðherra varaði þjóðina ekki við þótt hann sæi það skýrt fyrir að þessi sala yrði klúður en varaði hins vegar hina ráðherrana við sem skelltu við skollaeyrum,“ sagði Sigmar.
„Einnig má nefna óljósa og ónóga upplýsingagjöf til Alþingis sem hamlaði störfum þingsins í þessu tiltekna máli og niðurlagningu heillar stofnunar án umræðu, einmitt til þess að færa frá sjálfum sér umræðuna um ábyrgð og yfir á Bankasýsluna. Traustið fór og hvað hafa menn gert til að efla traustið á ný? Hvaða pólitísku ábyrgð hafa menn axlað í því samhengi? Svarið við þessu er því miður frekar slappur brandari.“
„Fjármálaráðherra hefur að sögn samráðherra sinna, forsætisráðherra og viðskiptaráðherra, axlað hana með því að velja sjálfur þann farveg sem málið var sett í, farveg sem svarar engu um pólitíska ábyrgð ráðherrans eða ríkisstjórnarinnar. Orð ráðherranna um þetta voru mjög skýr. Að mati forsætisráðherra og viðskiptaráðherra axlaði sem sagt fjármálaráðherra pólitíska ábyrgð með því að láta skoða allt nema eigin ábyrgð. Í þessu samhengi geri ég orð Henrys Alexanders Henryssonar, doktors í heimspeki, að mínum þegar hann svaraði spurningum fjölmiðla um þessi orð forsætisráðherra og viðskiptaráðherra, með leyfi forseta:
„Til dæmis var vitnað í tvo ráðherra ríkisstjórnarinnar í vikunni varðandi slíka ábyrgð og getur maður ekki annað en vonað að rangt hafi verið eftir þeim haft. Viðbrögð þeirra voru óskiljanleg.“
Þetta segir allt um það hvernig farið er með hugtakið pólitísk ábyrgð í þessu stjórnarsamstarfi.“