Páll Magnússon, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifar langa og merka grein um flokkinn og Mogginn birtir í dag. Stundum í greininni sést til blaðamannsins Páls. Hann ber saman árangur þriggja formanna flokksins og sýnir fram á hversu slakur Bjarni Benediktssoner. Hann tók við flokknum við erfiðara aðstæður en hefur ekki náð að laga stöðuna hætis hót.
Gefum Páli orðið:
„Og hver er þá staða flokksins núna? Við skulum horfa á hana í tæplega 50 ára samhengi til að flækja málin ekki um of. Þrír formenn á þessu tímabili eiga það sameiginlegt að hafa leitt flokkinn í gegnum fernar kosningar. Hinir tveir leiddu flokkinn aðeins í gegnum einar kosningar hvor um sig. Geir Hallgrímsson leiddi flokkinn í kosningum 1974, 1978, 1979 og 1983 og að meðaltali hlaut flokkurinn 37,3% fylgi. Davíð Oddsson leiddi flokkinn í kosningum 1991, 1995, 1999 og 2003. Meðaltalsfylgi 37,5%. Bjarni Benediktsson leiddi flokkinn í kosningum 2009, 2013, 2016 og 2017. Meðaltalsfylgi 26,2%.
Nú skulum við strax slá þann varnagla að árangur eða árangursleysi í kosningum er ekki formanni flokksins einum að þakka eða kenna. Og við skulum líka hafa í huga að Bjarni Benediktsson tók við flokknum á algjörum grjótbotni 2009 – þegar stór hluti þjóðarinnar virtist reiðubúinn að trúa því að bankahrunið hefði verið Sjálfstæðisflokknum einum að kenna. Þessi botn mældist í kosningunum 2009 vera 23,7%, sem er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið á þessu 50 ára tímabili. Flestir Sjálfstæðismenn gerðu sér vonir um að frá þessum botni gæti leiðin ekki legið annað en upp á við.
Það sem hins vegar gerir stöðu flokksins grafalvarlega í dag, og er mikið umhugsunarefni nú í aðdraganda kosninga, er að fylgi flokksins núna, 12 árum seinna, er að mælast nákvæmlega það sama og þegar það skall á botninn 2009. Síðasta Gallup-könnun mælir fylgið 23,5%; kaldhæðnislegt að það er nánast upp á aukastaf það sama og á botninum 2009.
Önnur neikvæð vísbending um stöðu flokksins er að allir fimm ráðherrar hans í ríkisstjórninni mælast stöðugt í hópi þeirra sex ráðherra sem minnst ánægja er með og mest óánægja. Þetta er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ættu að hafa mest forskot í svona mælingum – komandi frá langstærsta flokknum.“
Má lesa úr þessu fullkomið getuleysi Bjarna Benediktssonar? Kannski.