Bjarni kolfallinn á eigin prófi
„…stjórnvöld hafa lent í spennitreyju eigin stefnu…“
Bjarni Benediktsson, og þá um leið öll ríkisstjórnin, kolféll á eigin prófi. Fjármálaráð hefur farið yfir fjármálaáætlun Bjarna til næstu ára og niðurstaðan er vægast sagt niðurlægjandi fyrir fjármálaráðherra Íslands.
,,Að öllu virtu virðast stjórnvöld hafa lent í spennitreyju eigin stefnu hvað varðar afkomumarkmið. Stjórnvöld eru komin í þessar ógöngur vegna verklags og framvindu í stefnumörkuninni. Fjármálaráð hefur ítrekað varað við að slík staða gæti komið upp. Lögin um opinber fjármál heimila ekki að stefnumið fjármálastefnu um afkomu og skuldir séu brotin,“ segir á einum stað í umfjöllun um endurskoðun fjármálastefnunnar.
Mogginn hefur lesið einkunnirnar vel yfir og segir fjármálaráð segja að lögð sé rík áhersla á umbætur í verklagi og gagnrýnir ráðið að meðhöndlun grunngilda hafi færst til verri vegar.
,,Í framlagðri fjármálaáætlun ríkir ekki nægilegt gagnsæi varðandi þær breytingar á tekju- og útgjaldaráðstöfunum sem átt hafa sér stað milli áætlana og þær settar í samhengi við boðuð áform stjórnvalda,“ segir í athugasemdunum.