- Advertisement -

Bjarni í svörtustu afneitun

„Utanríkisráðherra segir að setja verði aðgerðir Ísraelsmanna á Gaza í samhengi. Hann vildi ekki fullyrða að Ísraelsher hafi gert árás á flóttamannabúðir. Ísraelsher hefur viðurkennt árásina.“ Þetta segir í frétt RÚV.

Þarna gengur Bjarni nokkuð langt í afneitun. Ísraelher hefur játað óþverraskapinn. En ekki utanríkisráðherra Íslands. Fréttin á ruv.is er merkileg:

„Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra neitaði á blaðamannafundi í gær að fullyrða að Ísraelsher hafi gert árás á flóttamannabúðir í Jabaliya á Gaza í vikunni. Ísraelsher viðurkenndi að hafa gert loftárás á búðirnar í vikunni, þar sem herinn sagði að Hamas væri með bækistöðvar. Ísraelsmenn saka Hamas um að hafa flutt 100 konur og börn á staðinn til þess að skýla bækistöðinni.

Fréttamaður NRK spurði utanríkisráðherra Norðurlandanna á blaðamannafundi í gær hvaða orð þeir myndu nota til að lýsa árásinni á flóttamannabúðirnar. Bjarni tók orðið og innti fréttamanninn að því hvort hann hafi sagt árás á flóttamannabúðir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Og það er það sem gerir hlutina mjög flókna.“

„Ef þú biður mig um viðbrögð við árás á flóttamannabúðir þá ertu að fullyrða að það hafi verið gerð árás á flóttamannabúðir,“ sagði Bjarni. Fréttamaðurinn umorðaði þá spurninguna og spurði hvaða orð þeir myndu nota varðandi það sem Ísrael gerði við flóttamannabúðirnar í Jabaliya.

Bjarni svaraði því til að það fari eftir því hvernig litið sé á það. „Eins og ég sé það þá eru átök í gangi gegn hryðjuverkamönnum. Og allt sem gerist eins og við sáum í flóttamannabúðunum er bara hryllilegt,“ sagði hann. Hann bætti því við að svona lagað verði að forðast enda stríði það gegn alþjóðalögum.

„En þú getur ekki tekið þetta úr því samhengi að hryðjuverkamenn eru að berjast gegn Ísraelsmönnum núna, og eru enn. Og það er eitthvað mótsvar vegna þess. Við höfum séð mörg dæmi þess að hryðjuverkamennirnir noti almenna borgara sem skildi. Og það er það sem gerir hlutina mjög flókna.“

Bjarni sagði jafnframt að það sem birt sé í fjölmiðlum sé hryllilegt og dapurlegt „og þetta er ástæða þess að við köllum eftir mannúðarhléi á átökunum,“ sagði hann að lokum. Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um ályktun um vopnahlé af mannúðarástæðum.

Ísraelsher segist hafa fellt Ebrahim Biari, stjórnanda hryðjuverkasveitar Hamas í Jabalia. Fleiri Hamas-liðar hafi einnig verið felldir í árásinni á bækistöðina. Samkvæmt Ísraelsher hafði Hamas yfirtekið nokkur hús almennra borgara í Jabaliya og margir hinna föllnu í árásinni hafi verið Hamas-liðar.

Þá segir herinn að hús hafi hrunið eftir að göng undir þeim féllu saman í árásinni. Engar staðfestar tölur hafa verið gefnar út um mannfall í flóttamannabúðunum eftir árásina. Stjórn Hamas á Gaza sagði í morgun að 195 séu látnir, 120 saknað í rústunum og nærri 800 hafi særst.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: