„Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði, um leið og hann hengdi ábyrgðina á kjarasamningum um háls Grindvíkinga, að það yrði að gera þá kröfu til allra að þau „tækju tillit til heildaraðstæðna“ því engin ættu að vera tekin úr þeim „heildaraðstæðum sem við öll værum föst í“,“ segir í nýrri Moggagrein Ásthildar Lóu Þórhallsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins.
„Heildaraðstæðurnar eru einfaldlega þær að þúsundir heimila standa ekki undir húsnæðiskostnaði sínum. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við því?
Staðreyndin er sú að vegna óhóflegra vaxtahækkana, þar sem öllu meðalhófi var fleygt út um gluggann, standa þúsundir heimila höllum fæti. Ef ekki væri fyrir vaxtabyrðina, þyrftu verkalýðsfélögin ekki að kalla eftir 25 milljarða króna leiðréttingu á tilfærslukerfunum,“ segir einnig í greininni.
„Við vitum að vaxtalækkanir hugnast ekki þeim sem ríkisstjórnin hefur framselt vald sitt til, Seðlabankanum. Því þó það sé erfitt að ímynda sér það er veruleikafirringin jafnvel enn meiri þar en hjá ríkisstjórninni. Í Svörtuloftum virðast vaxtalækkanir hljóma eins og föðurlandssvik á meðan því er einmitt þveröfugt farið.
Það er lykilatriði að lækka vexti og létta þannig byrðar heimilanna. Verkalýðshreyfingin hefur unnið heimavinnuna sína. Ríkisstjórnin ætti að taka hana sér til fyrirmyndar og fara að vinna fyrir fólkið í landinu.“
Hér er aðeins birtur hluti greinarinnar.