Bjarni hefur Bankasýsluna hjá sér
Bankasýslan átti að hætta starfi árið 2014 og engin lagaheimild, til áframhaldandi starfs, er til staðar.
„Mér finnst furðulegt hvernig Bankasýslan hefur fylgt fjármála- og efnahagsráðherra á milli ráðuneyta. Þ.e úr fjármála- og efnahagsráðuneyti yfir í forsætisráðuneytið og aftur til baka í fjármála- og efnahagsráðuneytið. Það er vegna þess og fullvissu minnar um ólögmæti Bankasýslunnar sem ég sendi skriflega fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra. Svarið barst mér nú í vikunni og hefur verið birt á Alþingisvefnum.“
Það er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem á þessi orð.
En ólögmæti Bankasýslunnar, er hún ólögleg?
„Lög um Bankasýslu ríkisins nr. 88/2009 tóku gildi 20. ágúst 2009. Það er algjörlega hafið yfir allan vafa að mínu mati, að 9.gr. laganna er eins skýr og skorinort og lagaákvæði getur orðið. Þar segir orðrétt um lok stofnunarinnar.
„Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður.“
Ákvæðið felur það einfaldlega í sér að stofnunina skuli leggja niður eigi síðar 20. ágúst 2014. Hún hafði einfaldlega engan lagagrundvöll að byggja á við sölu Borgunar og hluta Arion banka til hrægamma og tengdra aðila á sínum tíma.“
Byggt á grein Ingu í Mogganum í dag.