„Ég hef enga trú á því að ég geti lamið slíkar breytingar í gegn úr mínum ráðherrastól,“ segir fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, í nýju Moggaviðtali. Þar talar hann um breytingar á „kerfinu“ sem hann segir geta verið þunglamalegt.
Blaðamaður Moggans spyr:
Þurfa ráðherrar þá ekki að beita meira agavaldi? Ríkisendurskoðandi hefur fundið að rekstri ýmissa stofnana en samt miðar nú hægt áfram.
„Jú, en skoðum þá hvernig eftirliti með opinberu fé er háttað. Alþingi er aðallega upptekið af því hvort farið er að fjárlögum. Ef tíu milljarðar eru veittir á einhverju sviði en útgjöldin reynast tíu og hálfur, þá skoðar Alþingi hálfa milljarðinn, en það er enginn að hugsa um þessa tíu. Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd fjárlaga og við höfum verið að láta reyna á þá nýjung, sem við köllum endurmat útgjalda og spyrja hvort það sé þörf á föstum fjárheimildum eða hvort það megi gera hlutina öðruvísi, betur eða ódýrar. Ég skal alveg játa að mér hefur þótt það sækjast hægt og kerfið getur verið þunglamalegt. Við gerum allt of lítið af því að spyrja slíkra spurninga, hvort það þurfi að hugsa hlutina frá grunni eða hvað?“
Ertu þá að tala um allsherjar-uppstokkun á kerfinu?
„Ég vil beita mér fyrir viðhorfsbreytingu í kerfinu. Leiðslur geta verið ákaflega langar hjá hinu opinbera, í embættismannakerfinu, um forstöðumenn, skrifstofustjóra, deildarstjóra og svo framvegis. Ég hef enga trú á því að ég geti lamið slíkar breytingar í gegn úr mínum ráðherrastól, heldur þarf til hugarfarsbreytingu þar sem allir þurfa að koma með og búa til betra verklag og betri opinbera þjónustu.“
Ertu að segja að kerfið sé of gamaldags fyrir nútímastjórnunarhætti, að því þurfi að breyta frá rótum?
„Já, ég held það.“