„Var vanrækslan „af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi“ og var málið þannig vaxið að það hafi „stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“? Hversu mikið þarf til?“ Björn Leví Gunnarsson .
Stjórnmál „Nánar var fjallað um Íslandsbankamálið og spurði þáttastjórnandi umboðsmann hvort ákveðið grandleysi sé það sem er ámælisvert en umboðsmaður svarar einfaldlega „ég myndi ekki nota orðið grandleysi, ég myndi frekar nota orðið vanræksla“, sem þáttastjórnanda fannst mun sterkara orð,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson í Mogga dagsins. Greinin er birt á leiðarasíðu blaðsins.
Björn styðst við útvarpsviðtal við fráfarandi umboðsmanns Alþingis.
„Já, vanræksla er mun sterkara orð í samhengi athafna og ábyrgðar ráðherra því það má finna í lögum um ráðherraábyrgð. Það má krefja ráðherra ábyrgðar vegna vanrækslu samkvæmt þeim lögum ef málið er svo vaxið. Fyrst umboðsmaður notar orðið vanræksla um störf ráðherra þá hljótum við (og ráðherra) að þurfa að spyrja okkur hvort málið sé það alvarlegt að landsdómur þurfi að svara til um stöðu ráðherra í því máli,“ skrifar Björn Leví.
Svo spyr Björn Leví:
„Var vanrækslan „af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi“ og var málið þannig vaxið að það hafi „stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“? Hversu mikið þarf til?“
Svo kemur þetta:
„Ég held að það sé augljóst að það þurfi að útkljá þetta álit umboðsmanns fyrir Landsdómi. Ráðherra kýs varla að sitja undir þessum ávirðingum um vanrækslu og hlýtur að leita eftir sýknu gagnvart þeim. Alþingi hlýtur einnig að vilja vita hvað meint vanræksla ráðherra þýðir með tilliti til laga. Alþingi hlýtur líka að vilja vita hvernig stendur á því að ráðuneytin séu ekki að sinna almennu eftirliti með stofnunum sínum og réttindum borgaranna.
Við hljótum öll að vilja vita þetta.“