Bjarni fúskaði með eignir almennings
Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu skrifar:
„Áróðursmaskína ríkisstjórnarinnar er komin á fullt eftir margra vikna undirbúning og þar er engu skeytt um staðreyndir.
„Það segir ekkert annað í skýrslunni en að fjárhagslegra hagsmuna ríkisins hafi verið ágætlega gætt,“ segir Bjarni Benediktsson. Þetta er rangt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir þvert á móti að eftirspurn hafi verið vanmetin svo rækilega að stjórnvöld kunni að hafa „skaðað hagsmuni ríkissjóðs“.
Það liggur fyrir að ráðherra tók ákvörðun um sölu á tugmilljarða verðmætum í eigu ríkisins á grundvelli ónákvæmra upplýsinga og án þess að taka við rökstuðningi fyrir ákvörðun lokaverðs frá Bankasýslunni.
Ríkisendurskoðun staðfestir líka að jafnræðis var ekki gætt gagnvart kaupendum og að ráðherra gaf þingnefndum ónákvæmar upplýsingar um hvernig staðið yrði að sölunni.
Katrín Jakobsdóttir reynir að hengja allt það sem fór úrskeiðis á Bankasýsluna, m.a. þessa villandi upplýsingagjöf sem ráðherra sjálfur ber höfuðábyrgð á, enda hangir ríkisstjórnarsamstarfið á því að enginn axli ábyrgð og ekkert raunverulegt uppgjör á Íslandsbankamálinu fari fram.
Fjármálaráðherra fúskaði með eignir almennings. Þetta liggur fyrir.
Ríkisstjórnin mun ekki komast upp með að gaslýsa þjóðina í þessu máli.“