Lagði ég m.a. til að bætt yrði við skilyrði í samninginn sem hefði dregið úr áhættu ríkisins. Á það var ekki hlustað.
„Svarið var að það væri mat fjármálaráðuneytisins að ekki væri eðlilegt að nefndin leitaði umsagna annarra aðila en Ríkisendurskoðunar. Lýsti ég yfir vonbrigðum í ljósi þess að slík vinnubrögð ganga á skjön við eftirlitshlutverk Alþingis og ganga í raun freklega á valdsvið þess.“ Willum Þór Þórsson er formaður fjárlaganefndar.
Þetta er þunga miðjan í Moggagrein Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, um samning Bjarna Benediktssonar og Seðlabankans um allt að fimmtíu milljarða brúarlánasamning.
Aðeins Ríkisendurskoðun fékk að skila inn umsögn, til fjárlaganefndar, vegna brúarlánafrmvapsins.
„Nefndarmenn í fjárlaganefnd fengu mjög skamman tíma til þess að kynna sér samninginn og einungis tvær klukkustundir til að skila inn skriflegum athugasemdum, svo mjög lá á að undirrita hann. Lagði ég áherslu á að nauðsynlegt væri að fá álit sérfræðinga á samningnum til að hægt væri að glöggva sig á álitaefnum. Ein umsögn barst og er frá Ríkisendurskoðun, sem varð að vinna hana í miklum flýti. Óskaði ég eftir því að fá að kalla til óháða sérfræðinga fyrir nefndina, eins og venjan er. Á það var ekki fallist,“ skrifar Birgir.
Um samninginn segir Birgir: „Hann er tæknilega flókinn bæði um framkvæmd og eftirlit. Óvíst er hversu mikið kemur til með að falla á ríkissjóð. Í nefndaráliti kemur fram að fjárlaganefnd eigi að fjalla um samninginn áður en hann er undirritaður.“
Birgir segir Miðflokkinn styðja þær fyrirætlanir sem í samningum felast. „Fjárlaganefnd átti enga möguleika á að greina samninginn með óháðum sérfræðingum til að tryggja að markmið hans nái fram að ganga og að fyllsta öryggis sé gætt í meðferð ríkisfjár. Þetta eru óvönduð vinnubrögð og skrifast á ríkisstjórnarflokkana. Í samningnum eru annmarkar sem nauðsynlegt var að ræða frekar. Þannig benti Ríkisendurskoðun á augljósar hættur hvað varðar veðtryggingar. Lagði ég m.a. til að bætt yrði við skilyrði í samninginn sem hefði dregið úr áhættu ríkisins. Á það var ekki hlustað.“
Birgir endar grein sín svona: „Mikilvægt er að koma fyrirtækjum til aðstoðar á fordæmalausum tímum, svo ekki þurfi að koma til uppsagna starfsfólks. Mikilvægt er að ráðdeildarsemi ríki í meðferð ríkisfjár og úrræðið verði ekki misnotað. Mestu skiptir að úrræðið dugi til að stuðla að því að rétta við atvinnureksturinn í landinu og vernda störf fólks.“
-sme