- Advertisement -

Bjarni fann upp nýja verðtryggingu

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar:

Þá er Bjarni Benediktsson mættur með refsivöndinn að hækka gjöldin. Hann talar um mikilvægi aðhalds en takið eftir því að það er millitekjufólkið og lágtekjufólkið sem á að taka á sig allt aðhaldið…

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar, spurði Bjarna Benediktsson nokkurra spurninga í þinginu i gær. Hér er fyrri ræða Jóhanns Páls:

Fólk finnur kaupmátt sinn rýrna og greiðslubyrði af húsnæði rjúka upp. Það er undir þessum kringumstæðum sem hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson vill hækka gjöld á almenning. Verðtryggingin kom illa við marga Íslendinga í bankahruninu en nú er Bjarni Benediktsson búinn að finna upp á nýrri verðtryggingu. Hann ætlar að verðtryggja hvert einasta gjald sem er innheimt af almenningi í þessu landi. Þarftu að keyra til og frá vinnu? Ertu í veitingarekstri? Notar þú neftóbak? Þá er Bjarni Benediktsson mættur með refsivöndinn að hækka gjöldin. Hann talar um mikilvægi aðhalds en takið eftir því að það er millitekjufólkið og lágtekjufólkið sem á að taka á sig allt aðhaldið, ekki stóreignafólk, ekki stórútgerðin, ekki fólkið sem greiðir sér milljarða í arð af nýtingu auðlindanna okkar. Nei, það eru bara gjöldin á almenning sem Bjarni Benediktsson ætlar að nota til að ná fram þessu aðhaldi og það gerir hann með því að verðtryggja gjöldin alveg í botn. Þannig virkar verðtrygging Bjarna Benediktssonar. En hvers vegna er þessi leið valin af öllum mögulegum leiðum til að ná fram aðhaldi?

Bjarni svaraði:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bjarni Benediktsson:

Háttvirtur þingmaður ætti kannski að velta því fyrir sér hvers vegna Samfylkingin, sem fer nú fyrir málum í Reykjavíkurborg, er að gera nákvæmlega þennan sama hlut.

Það sem er að gerast í raun og veru er að við erum að hverfa frá því sem var ákveðið fyrir nokkrum árum, að hækka um minna en verðlagsbreytingar. En það hefur ávallt verið tryggt hér á Alþingi að þessir helstu gjaldstofnar ríkisins héldu í við verðlag. Það er það sem sagan segir okkur. En af því að hv. þingmaður vill halda því fram að ég hafi sérstaklega gætt þess að allir þessir gjaldstofnar héldu í við verðlag þá er það ekki rétt vegna þess að þegar sagan er skoðuð þá er það einmitt í minni tíð sem þessir gjaldstofnar hafa rýrnað að verðgildi. Það er sú saga sem hefur teiknast upp í minni tíð í fjármálaráðuneytinu. Háttvirtur þingmaður ætti kannski að velta því fyrir sér hvers vegna Samfylkingin, sem fer nú fyrir málum í Reykjavíkurborg, er að gera nákvæmlega þennan sama hlut. Borgarstjórn hefur samþykkt breytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar í samræmi við verðlagsbreytingar umfram forsendur fjárhagsáætlunar og áhrif þeirra á rekstur. Leiðréttingin nemur 4,5% og tekur gildi 1. september — á miðju ári fer Reykjavíkurborg inn í gjaldskrárnar sínar og hækkar til að tryggja að gjaldskrár Reykjavíkurborgar séu verðtryggðar og þær hækkanir leggjast allar á þá sömu gjaldstofna og hváttvirtur þingmaður hefur svona miklar áhyggjur af.

Jóhann sagði þetta í seinni ræðu sinni:

Sveitarfélög geta ekki lagt fjármagnstekjuskatt á fólk eða veiðigjöld.

Þetta tal hæstvirts fjármála- og efnahagsráðherra um sveitarfélög er auðvitað með ólíkindum. Sveitarfélög geta ekki lagt fjármagnstekjuskatt á fólk eða veiðigjöld. Sveitarfélög eru ekki hagstjórnaraðilar með sama hætti og ríkisvaldið og Seðlabankinn. Það er ótrúlega ódýrt af æðsta manni hagstjórnar hér í landinu fyrir utan Seðlabankann að velta ábyrgðinni yfir á sveitarfélög með þessum hætti. Og það skyldi þó ekki vera að gjaldahækkanir sveitarfélaga hafi eitthvað með það að gera að þau hafa yfir ósköp takmörkuðum tekjustofnum að ráða, að þau súpa seyðið af því að ár eftir ár er ýmsum verkefnum velt yfir á þau af okkur hér á löggjafarþinginu án þess að því fylgi fjármagn, án þess að því fylgi lögfesting nýrra heimilda til tekjuöflunar. Það skyldi þó ekki hafa eitthvað með það að gera?

Ég spyr aftur: Hvers vegna vill hæstvirtur fjármálaráðherra endilega núna þegar verðbólgan er mest, að fólkið sem finnur mest fyrir verðbólgunni og vaxtahækkununum taki líka á sig allt aðhald, fái á sig tvöfaldan skell?

Aftur kom Bjarni í ræðustól:

Þetta eru verulegar hækkanir, einhverjar þær mestu í sögunni frá einu ári til þess næsta í almannatryggingakerfinu.

Fólkið sem finnur mest fyrir verðlagshækkunum í landinu er fólkið sem við höfum verið að hugsa til þegar við hér á miðju ári hækkuðum bætur almannatrygginga, hækkuðum sömuleiðis húsaleigubætur, hækkuðum barnabótaaukann, greiddum út sérstakan barnabótaauka til fjölskyldna með börn og við erum að bæta í þannig að bætur almannatrygginga hækka milli ára um 9%. Þetta eru verulegar hækkanir, einhverjar þær mestu í sögunni frá einu ári til þess næsta í almannatryggingakerfinu. En í einum manni höfum við fengið að sjá þann sem talar fyrir verðtryggingu gjalda á sveitarstjórnarstiginu og gegn verðtryggingu gjalda í opinbera kerfinu og mér finnst þetta vera dálítið sérkennilegur málflutningur vegna þess að verðhækkanir til samræmis við verðlag á gjöldum á sveitarstjórnarstiginu eru bara greiddar af fólkinu sem býr í borginni alveg með nákvæmlega sama hætti og við höfum verið að rekja hér. Ég hef fært rök fyrir því að það séu ekki aðstæður núna til þess að horfa upp á raunlækkun þessara gjalda.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: