Eflaust er ekki ýkja langt á milli Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sama hversu langt bilið er stendur Davíð Oddsson og Mogginn þar mitt á milli. Hann brúar bilið.
Í leiðara Moggans segir: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að því á Alþingi í gær hvers vegna ekkert hefði gerst í því að leyfa liðskiptaaðgerðir hjá einkaaðilum hér á landi í stað þess að senda fólk út í slíkar aðgerðir fyrir mun hærra verð. Vísaði hann í orð fjármálaráðherra frá árinu 2019 þar sem hann hafi lýst áhyggjum af þessu ástandi og biðlistunum sem væru eftir slíkum aðgerðum.“
Svandís Svavarsdóttir er ekki vinsæl í þessum hópi:
„Fjármálaráðherra ítrekaði þá skoðun sína að ekki ætti að sóa fé með þessum hætti og lýsti sig sammála fyrirspyrjanda. En hann sagðist ekki geta svarað því hvers vegna staðan væri eins og þingmaðurinn lýsti og sagðist gera ráð fyrir að heilbrigðisráðherra gæti verið til svara um það.
Þessi orðaskipti voru áhugaverð og ekki síst sú ábending formanns Sjálfstæðisflokksins að það væri heilbrigðisráðherra að svara fyrir þetta. Það er vissulega rétt, en þó verður ekki framhjá því litið að heilbrigðisráðherra hefur komist upp með ótrúlega aðför að sjálfstætt starfandi læknum og einkarekstri í heilbrigðisþjónustu á þessu kjörtímabili. Sú framganga heilbrigðisráðherra er langt umfram það sem talist getur ásættanlegt.“
(Grunur er um að Davíð hafi ekki sjálfur skrifað þennan leiðara. Hans merki sjást ekki).