- Advertisement -

Bjarni beygði Vinstri græn

Allt þar til ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur varð að veruleika var stefna flokka þeirra í skattamálum það sem helst bar á milli þeirra. Ég hef oftar en einu sinni, þá opinberlega, rætt við þau tvö samtímis um stjórnmál, sem og hvort fyrir sig. Aldrei hefur það brugðist að stefna í skattamálum hefur verið breið gjá þeirra á milli.

Nú ber svo við að bankaskattur er lækkaður um sextíu prósent, tekjuskattur um eitt prósent og fjarmagnstekjuskattur er einn skatta straumlínulagaður þannig að hann ver greiðendur fyrir verðbólgu.

Ríkisstjórnin núverandi tekur mjög ákveðna stefnu í skattamálum og engum dylst að þar ræður Bjarni og hans flokkur för.

Ólga er innan Vinstri grænna vegna stjórnarsetunnar. Hún nær inn í þingflokkinn einsog við vitum. Einn þingmaður hefur gengið langt í stuðningi við ríkisstjórnina. Sennilega lengra en aðrir þingmanna flokksins. Það er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður. Hún talaði í þingræðu um skattastefnu stjórnarinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Varðandi tekjuskattinn og lækkun hans er það auðvitað svo að ef við hefðum verið ein í ríkisstjórn hefðum við væntanlega ekki farið þessa leið,“ sagði Bjarkey og segir okkur þá um leið að þau urðu undir í ríkisstjórninni. Bjarni fékk að ráða, með góðu eða illu.

En hvað með bankaskattinn, sem lækkar um sextíu prósent. „Ég treysti því að lækkun bankaskattsins skili sér í minni vaxtamun, annars er tilganginum ekki náð,“ sagði hún. Það er ómögulegt að hún hafi trúað eigin orðum þegar hún sagði þetta. Svo fjarstæðukennt er þetta. Við Bjarkeyju er best að segja þetta eitt; kanntu annan. Engum dylst að fingaför Bjarna er á þessari ákvörðun.

Í helsta deilumáli flokkanna tveggja, þ.e. skattamálum og skattastefnu hefur Bjarni beygt Vinstri græn í duftið. Þar liggja þau nú.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: