Bjarni Benediktsson, vor og haust
Stjórnmál „Ef eitthvað er þá er þessi fjármálastefna mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi snemma í apríl á þessu ári, þá forsætisráðherra, að ræða um fjármálastefnu sinnar eigin ríkisstjórnar.
Þáverandi fjármálaráðherra og frændi Bjarna, Benedikt Jóhannesson, kemur að þessu i grein í Morgunblaðinu í dag. „Og hver var það sem taldi á Alþingi að fjármálastefnan væri ekki nægilega aðhaldssöm? Enginn annar en formaður stærsta ríkisstjórnarflokksins, núverandi fjármálaráðherra,“ skrifar Benedikt um frænda sinn sem nú gætir fjármálaráðuneytisins. Ef fer sem horfir er nokkuð víst að fjármálaráðuneytið verði Engeyinga í hátt áratug.
Benedikt frænda þykir Bjarni hafa villst að þeirri leið sem þeir ætluðu að feta saman, en tókst ekki einsog allir vita.
„Það er mikill sláttur á hagkerfinu, mikill hagvöxtur. Það eru ekki beinlínis efnahagslegar aðstæður sem kalla á að ríkið sé að auka við svigrúm í hagkerfinu,“ sagði Bjarni forsætisráðherra í apríl.
Í vor sem leið varaði Bjarni ákveðið við að sú leið yrði farin, það er leiðin sem hann nú fetar með nýrri ríkisstjórn. Fyrir aðeins átta mánuðum sagði hann: „Þegar menn koma hér og segja að ekki sé nægilega miklu fjármagni varið í einstaka málaflokka, hvort sem er sjúkrahúsþjónustan, almannatryggingar, hvort það er í kjarasamninga til þeirra sem eru með lægst launin eða menntamál, rannsóknir og þróun, þá er ágætt að hafa það sem grunn sem við höfum verið að ræða hér undanfarna daga, sem er fjármálastefna ríkisstjórnarinnar.“
-sme