„Ég held að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra séu búin að stinga hausnum í sandinn. Með því telja þau sig ekki þurfa að sjá fátækt og hvað þá sárafátækt. Þau sjá ekki allt fólkið sem stendur í biðröð eftir mat eða þann fjölda fólks, sem þarf að leita sér heitrar máltíðar á hverjum degi, en hann hefur nær tvöfaldast,“ skrifar Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, í Moggann í dag.
„Fjármálaráðherra hefur sagt að það séu bara örfáir einstaklingar í þeirri ömurlegu aðstöðu að vera í fátækt, en samt tekst honum að gleyma þeim. Enn færri í sárafátækt, en samt eru þeir ekki hluti af því sem hann eða ríkisstjórnin hefur metnað til að hjálpa.
Hvers vegna í ósköpunum er ríkisstjórnin ekki með áætlun um að útrýma fátækt? Fámennur hópur segir fjármálaráðherra, en samt ekki hægt að hjálpa honum. Þessi litli hópur fólks sem samanstendur af öryrkjum, eldri borgurum og láglaunafólki.
Þá bætist við sá fjöldi atvinnulausra sem detta út af atvinnuleysisskrá og beint í sárafátækt. Ömurlegast við það er að þetta snertir fjölda barna sem lenda í fátækarpyttinum með foreldrum sínum,“ skrifar Guðmundur Ingi,
„Svarið sem fjármálaráðherra gefur, spurður um framtaksleysi ríkisstjórnarinnar við að útrýma fátækt, er; „hvar á að finna peninga til þess?“ Já, það er til fjármagn í flestallt nema til að útrýma þjóðarskömminni fátækt. Fátækir verða að bíða lengur og jafnvel í fjögur ár í viðbót ef þessi ríkisstjórn verður áfram við völd eftir kosningar. Sjáum til þess að það verði ekki, því annars heldur áfram misskiptingin og þá einnig stéttaskipting sem af fátæktinni leiðir á Íslandi og hún bitnar hvað verst á börnunum.“
(Þetta er önnur fréttin í dag þar sem Bjarna Ben er getið. Mögulega verða þær fleiri.)